148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

áfengislög.

127. mál
[16:10]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður má ekki misskilja mig þannig að halda að ég sé á móti þessu frumvarpi. (Gripið fram í.) Ég er sérstakur stuðningsmaður. Ef ég rifja upp frelsi í viðskiptum með áfengi þá voru rökin þau að það myndi auka neysluna. Þar væru heilsufarssjónarmið að baki. Þau hljóta líka að eiga við um það ef ég fæ að framleiða áfengi sjálfur. Það hlýtur að þýða aukið aðgengi að áfengi.

Þess vegna segi ég: Er ekki þversögn í þessu? Það hlýtur að vera.

En varðandi bruggun á áfengi er mér alltaf minnisstætt gamalt viðtal sem ég sá í sjónvarpinu við sænskan lögreglustjóra í Smálöndunum. Þar var bruggfaraldur. Fréttamaðurinn segir við lögreglustjórann: Hvað, ætliði ekkert að gera? Hvað er hægt að gera til að stemma stigu við þessu? Lögreglustjórinn var með einfalt svar: Það er auðvitað bara að lækka verðið í ríkinu hjá þeim. Það er bara ein leið.

Það er svo mikið okrað á þessum fína drykk af því að einhverjir kunna ekki fótum sínum forráð, einhverjir fara yfir mörkin. Við erum alltaf að sníða samfélag okkar að þeim sem misstíga sig, í staðinn fyrir að reyna að koma þeim duglega á fætur og hjálpa þeim er alltaf verið að gera okkur hófsemdarmönnunum, sem enn erum hófsemdarmenn í þessu efni, lífið erfiðara. Það er gegnumgangandi hugsunarháttur í íslensku samfélagi. Einhverjir kunna ekki fótum sínum forráð, þá þarf alltaf að refsa mér.

En ég er mikil stuðningsmaður þessa frumvarps, hv. þingmaður.