148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

áfengislög.

127. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans skelegga stuðning. Eins og ég segi tel ég ekki að þetta muni auka neyslu. Ég hef engan heyrt segja að þetta auki neyslu. Ég sé ekki hvernig þetta myndi auka neyslu, einfaldlega vegna þess að það er allt annar skali á þessum málum. Það mun enginn brugga til einkaneyslu og dreifa því samkvæmt skilgreiningu. Vandinn við þessi lög er að maður getur framfylgt lögum um ríkiseinokun á áfengissölu, maður getur framfylgt lögum um áfengissölu, svo sem landasölu, bara með því að taka að sér starf lögreglu og elta vonda kallinn og allt það. En að framfylgja þessu lögum felur í sér svo mikið inngrip í einkalíf fólks, sem ég ítreka ekkert ákall er eftir, hvorki frá yfirvöldum, enn sem komið er, né almenningi, stjórnvöldum, Alþingi eða öðrum. Það er stóri munurinn á þessum tveimur málum.

Að því sögðu, ef það huggar hv. þingmann: Hvað varðar flutningsmenn á frumvarpinu þá myndi alla vega sá sem hér stendur alla jafna greiða atkvæði með frumvarpi um að heimila sölu áfengis hjá einkaaðilum með þeim fyrirvara að það fari eftir því hvernig það er útfært. Útfærslan skiptir í alvörunni máli. Það er alveg ljóst. Það skiptir verulegu máli hvernig hlutirnir eru útfærðir þegar kemur að því. En það eina sem þessi tvö mál eiga sameiginlegt er að orðið áfengi kemur fyrir í þeim báðum. Að öllu öðru leyti eru þau eðlisólík. Þetta snýst ekki um sölufyrirkomulag. Sölufyrirkomulag snýst ekki um þetta. Þetta snýst um einkaneyslu (Gripið fram í.) á meðan sölufyrirkomulag snýst samkvæmt skilgreiningu um sölufyrirkomulag. Þessi mál eiga ekkert sameiginlegt nema að við notum þetta orð, áfengi.

Ég sé því nákvæmlega ekki neina mótsögn í því að vera harðlega á móti því að selja áfengi í einkaverslunum og vera samt mjög hlynntur þessu máli. Enda snýst sölufyrirkomulagið sem fyrr greinir um viðskiptafrelsi, en þetta mál snýst um frelsi einstaklingsins fyrir yfirvöldum. Ég fagna því að hafa sem flesta meðflutningsmenn, hvaðan sem þeir koma, (Forseti hringir.) og þá sér í lagi hv. þm. Brynjar Níelsson.