148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

þingsköp Alþingis.

132. mál
[16:15]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég stakk einu sinni upp á því að fundir fastanefnda Alþingis væru að jafnaði opnir; gerði það nokkrum sinnum í ræðu en hef líka lagt fram frumvarp um að gera þann draum að raunveruleika. Ég ætla að byrja á að lesa frumvarpið í heild sinni, það er nú ekki mjög langt, svo að við séum öll á sömu blaðsíðu með það hvað hér er átt við. Fyrst vil ég geta þess að flutningsmenn þessa frumvarps eru sá sem hér stendur, Helgi Hrafn Gunnarsson, og hv. þingmenn Olga Margrét Cilia, Halldóra Mogensen, Björn Leví Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson og Smári McCarthy, þingmenn Pírata.

Frumvarpið er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„19. gr. laganna orðast svo:

Nefndarfundi mega auk nefndarmanna sitja starfsmenn nefnda og þeir gestir sem nefnd kveður til fundar eða fellst á að komi fyrir nefndina.

Nefndarfundir skulu að jafnaði haldnir í heyranda hljóði eftir því sem húsrúm leyfir og sendir út á vef samkvæmt reglum forsætisnefndar. Forsætisnefnd setur reglur um fundi skv. 1. málsl. og aðgang að þeim. Nefnd getur haldið fund í því skyni að afla upplýsinga um þingmál sem vísað hefur verið til hennar eða um mál sem nefndin tekur upp að eigin frumkvæði.

Nefnd getur óskað eftir því að núverandi eða fyrrverandi ráðherra, forstöðumenn sjálfstæðra ríkisstofnana, formenn ráða og nefnda á vegum ríkisins, ríkisendurskoðandi, umboðsmaður Alþingis, fulltrúar hagsmunaaðila og sérfræðingar sem ekki starfa undir stjórn eða á ábyrgð ráðherra komi fyrir nefndina og veiti henni upplýsingar. Fari að minnsta kosti fjórðungur nefndarmanna fram á slíkan fund skal formaður nefndarinnar leita eftir því með hæfilegum fyrirvara við þann sem beðinn er að koma fyrir nefndina að hann verði við því og gera honum grein fyrir tilefni fundarins. Slíkir fundir skulu haldnir í heyranda hljóði og sendir út í sjónvarpi og á vef þingsins samkvæmt nánari reglum forsætisnefndar.

Þingnefnd getur ákveðið að fundur verði haldinn fyrir luktum dyrum ef fjalla á um gögn eða upplýsingar sem nefnd tekur við í trúnaði, ef starfsmenn Stjórnarráðsins koma fyrir þingnefnd, ef gestur sem kemur fyrir nefnd óskar eftir því eða ef ræða skal mál sem varðar þjóðaröryggi eða mikilvæga hagsmuni Íslands sem leynt þurfa að fara. Óheimilt er að vitna til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum nefndarfundi nema með leyfi viðkomandi.

Óheimilt er að miðla upplýsingum á fundi sem haldinn er í heyranda hljóði, eða vísa til þeirra, sem eiga að fara leynt samkvæmt reglum um þagnarskyldu eða upplýsingalögum. Ekki skal halda fund í heyranda hljóði ef nefnd hefur fallist á að taka við upplýsingum eða gögnum í trúnaði, sbr. 50. gr. Formaður nefndar getur ákveðið að fundi skuli lokað svo að leggja megi fram slíkar trúnaðarupplýsingar.

Forsætisnefnd setur nánari reglur um framkvæmd funda fastanefnda Alþingis, m.a. um aðgang áheyrenda og útsendingu frá fundunum.“

Þetta er sem sé frumvarpið í heild sinni.

Nú er það svo sem ekki nýtt umræðuefni að opna nefndarfundi Alþingis. Ég verð að segja að Alþingi er, þvert á það sem margir í samfélaginu telja, frekar gegnsæ stofnun. Það er í sjálfu sér auðvelt að finna meira eða minna allt sem maður getur þurft að vita um þingmál og það sem við gerum hér með því að lesa vef Alþingis, þ.e. ef maður hefur fengið viðunandi þjálfun í að nota þann annars ágæta vef. Auðvitað er Alþingi ólíkt öðrum vinnustöðum þannig að oft kemur það fólki undarlega fyrir sjónir hvernig hlutunum er raðað upp og hvar þá er að finna. Það er í sjálfu sér skipulagsvandamál, það er í sjálfu sér ekki gegnsæisvandamál, ekki í eðli sínu.

Reyndar þekki ég engar góðar lausnir á því nema að hafa góða leitarvél, sem mér skilst reyndar að alþingisvefurinn hafi. Ég þarf ekki lengur leitarvél, langoftast ekki, ég bara veit hvar ég á að finna hlutina, finn þá frekar auðveldlega og lendi ekki í vandræðum með það. Nema þegar kemur að fundum fastanefnda. Það er eini staðurinn, eini blindi punkturinn, þar sem ég upplifi það aftur og aftur að mig vanti upplýsingar. Sem betur fer eru til þingmenn sem eru duglegir við að bóka á fundum fastanefnda en bæði virðist það ekki þykja mjög fínt og virðist ekki gerast nema sérstakt tilefni þyki til.

Það þýðir að slíkar bókanir eiga sér í raun einungis stað þegar um er að ræða efni sem hefur tilhneigingu til að verða umdeilt eða yfirgripsmikið eða því um líkt. Slíkar bókanir geta skipt sköpum. Ég ætla að nefna eina sérstaklega, bókun hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar og þáverandi hv. þm. Birgittu Jónsdóttur í hinu svokallaða Landsréttarmáli. Þá var lögð fram bókun þar sem kom fram efni sem annars hefði ekki verið hægt að nýta í umræðunni um það mikilvæga mál. Nú veit ég ekki hvort sá fundur hefði endilega verið opinn. Það bara þekki ég ekki. Ég þekki ekki aðstæður, veit ekki hvort svo hefði verið, en alla vega er mikilvægt að það sem kemur fram á nefndarfundum sé á einhvern hátt aðgengilegt.

Hin hefðbundna leið fyrir þingið, til að koma slíkum upplýsingum á framfæri, er með nefndarálitum og öðrum álitum, jafnvel sjálfstæðum þingmálum. Það er alveg góðra gjalda vert. En hafandi átt hlut að ansi mörgum nefndarálitum veit ég að þar liggur mjög oft, ef ekki hreinlega alltaf, ýmislegt eftir ósagt, nema kannski í allra minnstu málunum þar sem ekki þarf að segja mjög margt. Oft eru nefndarálit lögð fram af meiri hluta; minni hluti er ekki hlynntur málinu, er með sínar röksemdir og vangaveltur eða býr yfir upplýsingum sem kalla fram efa. Hann vill þá kannski ekki vera með á áliti meiri hlutans en skilar ekki endilega minnihlutaáliti sjálfur. Enn fremur kemur fyrir að minni hluti samanstendur af nokkrum flokkum — nokkrum, segir maður nú til dags — og þeir flokkar eru kannski sammála um eitthvert meginstef en innbyrðis ósammála um aðra hluti. Þá skila þeir sameiginlegu nefndaráliti með því sem þeir eru sammála um. Þannig fæst fram lægsti sameiginlegi samnefnari minni hlutans í slíkum álitum. Fyrir utan það að minni hlutar skila ekki endilega nefndaráliti til að byrja með.

Það ferli allt saman, í sambandi við nefndarálit og samskipti við þingið, er að mínu mati ágætt. Almennt er ekki ágreiningur um hvernig þessir fundir eigi að virka. Þingsköpin eru í meginatriðum skýr. Þegar upp kemur ágreiningur er yfirleitt mjög auðveldlega leyst úr honum, ýmist með úrskurði forseta og/eða með vísan til reglna eða þingskapalaga. En eftir stendur að almenningur, fjölmiðlamenn og þingmenn sem ýmist komast ekki á fundinn eða eru ekki á þingi tímabundið hafa ekki aðgengi að samskiptum aðila.

Það eru tvenns konar áhyggjur sem ég hef heyrt frá þingmönnum í sambandi við þetta mál, alveg réttmætar áhyggjur, en ég ætla að reyna að slá á þær hér. Menn hafa áhyggjur af því að með því að opna nefndarfundi verði þetta allt saman eitthvert leikrit. Ég verð að segja eins og er, hafandi setið á ansi mörgum lokuðum nefndarfundum og horft á allnokkra opna nefndarfundi, að ég er ekki sammála því að opnir nefndarfundir breytist í eitthvert leikrit. Ekkert meira leikrit en ég sé á lokuðum nefndarfundum. Eru þingmenn ekki með sína stuttu pistla og athugasemdir á lokuðum nefndarfundum líka? Jú. Það koma gestir og þingmenn ræskja sig og lesa þeim pistilinn og svo kemur spurning. Svona er þetta á opnum nefndarfundum og líka á lokuðum. Svona tjá menn sig þegar þeir hafa ríkulegar skoðanir á nefndarfundum. Í sjálfu sér er ekkert að því svo lengi sem það er í góðu hófi. Sem aftur er mín reynsla að sé tilfellið, bæði á lokuðum nefndarfundum og opnum. Þótt ég skilji áhyggjurnar er ég ekki sammála því að þetta sé tilfellið.

Fyrir utan það er það svo með nefndarfundi að þeir eru skilgreindir mjög skýrt í tíma. Hægt er að tilgreina tiltekinn umræðutíma sem hver og einn þingmaður hefur til að hafa samskipti við gesti. Fundarstjórn er möguleg. Það þarf ekki að vera neitt vandamál og hefur ekki verið vandamál að mér vitandi. Mér finnst það ekki vera eitthvað sem ætti að sannfæra fólk um að halda nefndarfundum lokuðum. Ónei, ef þingmaður færi í nefnd að bóka skoðanir sem hann myndi ekki gera hér í pontu er það í fyrsta lagi bara fínt og í öðru lagi er það ekki þannig samkvæmt minni reynslu. Þingmenn eru tiltölulega ófeimnir við að tjá hug sinn, hvort sem er á lokuðum nefndarfundum eða hér.

En svo er hitt sem fólk hefur bent á og haft áhyggjur af. þ.e. að ef nefndarfundir væru alltaf opnir taki þingmenn samtalið bara eitthvert annað. Að í stað þess að fara að ræða hálfmyndaðar hugmyndir eða vangaveltur, spurningar eða því um líkt, myndu þingmenn bara sleppa því á þessum vettvangi og það samtal ætti sér einungis stað á öðrum vettvangi; ekki einu sinni á fundi og ekki einu sinni með fulltrúum allra flokka, sem helst þyrfti að vera; ætti sér ekki stað í þeim aðstæðum þar sem fundarstjórn er viðhöfð og allir væru að tala við alla. Af þeim sökum geri ég ráð fyrir að opnir nefndarfundir séu almennt ekki sérstaklega gagnlegir þegar þingmenn eru að tala við aðra þingmenn, það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að samtöl við gesti séu aðgengileg öllum. Eins og kemur fram í frumvarpinu, og ég vona að hlustendur hafi tekið eftir, er gert ráð fyrir að gestir geti beðið um að fundurinn verði lokaður og þá verður hann lokaður. Það kemur fyrir að gestir þurfa að koma einhverjum trúnaðargögnum að eða kæra sig ekki um að vera í sviðsljósinu, það er góð og gild ástæða að mínu mati. En ég held samt að ef þessir fundir væru að jafnaði opnir en lokaðir þegar sérstakt tilefni væri til myndum við bæta mjög umræðuna úti í samfélaginu. Fjölmiðlar hefðu betra aðgengi að umræðum, almenningur gæti betur áttað sig á hlutunum og þingmenn sem ekki eru viðstaddir fundinn sjálfir gætu líkað áttað sig betur á málum. Það kemur oft fyrir í alls konar umræðum að við förum að karpa, undir liðnum fundarstjórn forseta, um hvað hafi gerst á einhverjum nefndarfundi. Það er eðlilegt að fólk hafi mismunandi sýn á hvað gerist hverju sinni. Manneskjur eru þannig að þær muna ekki alltaf sömu hlutina og muna þá ekki eins, upplifa þá ekki á sama hátt. Við því er að búast. En aftur: Það eru rök fyrir því að opna þessa fundi.

Þetta er það helsta sem ég vildi sagt hafa um þetta mál. Ég held að óttinn við opna fundi sé byggður á ofmetnum atriðum. Ég held að fólk vanmeti hversu jákvæð áhrif þetta hefði á umræðuna í samfélaginu, meðal fjölmiðlamanna og jafnvel þingmanna sjálfra.

Ef þetta frumvarp myndi ná í gegn og við hefðum að jafnaði opna nefndarfundi tel ég að við gætum auðveldlega sagt við almenning, einstaklinga sem finnst samt eitthvað vera ógegnsætt: Hvað eigum við að opna fleira? Þá væri það afskaplega fátt sem væri yfir höfuð mögulegt að opna frekar í hinu formlega ferli þingstarfanna ef þetta væri opið líka.

Eins og ég segi. Alþingi er merkilega gegnsæ stofnun. Það er almennt auðvelt að nálgast gögn hér. Sumt er sent inn í trúnaði, af og til lendir eitthvað inn í fundagátt sem ætti heima á vefnum og eitthvað svoleiðis en mín reynsla er sú að það heyri til undantekninga.

Nú hef ég gert grein fyrir þessu máli og vil bara segja að lokum að mér finnst þessi mál, hvernig þingstörfin virka, hvað þingskapalög segja, hvað reglur forsætisnefndar segja, hvað stjórnarskráin segir, vera lykilatriðið í því að leysa alls konar önnur vandamál í samfélaginu. Við erum stundum að velta fyrir okkur hvort við eigum að beygja til vinstri eða hægri eða fara inn þessa götu eða hina þegar dekkin eru slitin og vélin er biluð. Við eigum að laga vélina fyrst og skipta um dekk og síðan halda áfram á okkar vegferð. Þá getum við haldið áfram að rífast um hvort við förum niður þessa götu eða hina. Svona hluti ættum við öll að geta sameinast um að laga, auðvitað eftir góðar og nauðsynlegar rökræður. En þetta er án tillits til hægri eða vinstri, án tillits til hagsmuna, þetta snýst um okkur öll, ekki bara þingið heldur almenning sem við hér eigum jú að þjóna.

Ég legg að lokum til, enn og aftur, að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.