148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

þingsköp Alþingis.

132. mál
[16:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar bara að impra á því að það er náttúrlega gríðarleg gagnsæiskrafa uppi í samfélaginu. Eftir að hafa skoðað þetta mál Helga Hrafns Gunnarssonar og okkar þingmanna Pírata og eftir að hafa séð hvernig það stillist upp við samantekt okkar á réttmætum kröfum um að opna nefndarfundi sem við höfum verið að viða að okkur í gegnum tíðina og prófa okkur áfram með þær leiðir sem mögulega eru til staðar í dag til þess að opna nefndarfundi, til þess að umræðan í nefndum sé gagnsæ, sýnist mér ein krafa vera alltaf langsterkust. Það er krafan um gagnsæi þegar það koma gestir fyrir þingnefnd þegar nefndin vinnur að máli sem þingið hefur vísað til nefndarinnar. Nefndin athugar hvort það sé gott mál, slæmt mál, hvort eitthvað megi laga, eigum við að vísa því til ríkisstjórnarinnar aftur eða hvað eigum við að gera með málið? Fólk kemur fyrir nefndina, hagsmunaaðilar úti í bæ, og lýsir sinni skoðun á því hvernig ætti að fara með málið og ef þær upplýsingar liggja ekki fyrir eða eru ekki aðgengilegar landsmönnum hafa landsmenn ekki aðgengi að því á hvaða grundvelli við í nefndum tökum okkar ákvarðanir um hvort málið sé gott eða ekki.

Það sýnist mér vera langsterkasta krafan um að opna á það að landsmenn sjái fyrir opnum tjöldum hvernig hagsmunaaðilar, sem tala í krafti sinna félaga og verða náttúrlega að fara varlega með það sem þeir segja fyrir opnum tjöldum, rökstyðja sitt mál. Að landsmenn sjái hvers vegna eitthvert mál sem þingið hefur vísað til nefndarinnar eigi að verða að lögum eða hvers vegna eigi að breyta einhverju. Þetta eitt og sér er langsterkasta krafan.

Ég get ekki séð hvernig aðrar kröfur sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi geta verið sterkari, ábendingar sem hafa verið viðraðar um óþægindi fyrir þingmenn að segja kannski eitthvað, jafnvel að þeir geti ekki bætt við og menn eru misvel undirbúnir í sínu starfi á fundum, það eru ýmis óþægileg atriði fyrir þingmenn, en ég get ekki séð að þau atriði séu sterkari en réttur landsmanna til að sjá þegar hagsmunaaðilar hafa formlega áhrif á löggjafann með sínum rökstuðningi. Því á þeim rökstuðningi verða síðan þingmenn að byggja sitt mál þegar þeir taka saman álit sitt á málum og leggja til við þingið: Við skulum gera þetta — eða ekki. Mér sýnist þetta vera langsterkasta krafan.

Svo vil ég benda á hvað opnir nefndarfundir hafa gert gott fyrir samfélag okkar upp á síðkastið. Það er hægt að fara inn á vef Alþingis og skoða hvaða opnu nefndarfundir hafa verið haldnir. Þetta er eitt af því sem við Píratar höfum lagt sérstaka áherslu á. Að það sé þessi opna, ríka umræða í nefndum. En í þessum tilfellum hefur ekki verið um að ræða þingmál sem er vísað til nefnda. Við höfum verið að skoða hvort við ættum að gera það líka í þeim tilfellum. Það þarf ekki nema þrjá þingmenn í nefnd til að kalla eftir að það séu bara allir fundir opnir, nema undir ákveðnum kringumstæðum eins og lögin segja til um núna, sem þetta frumvarp myndi að vísu víkka út og gera að meginreglu. En það sem við höfum gert er að kalla eftir opnum nefndarfundum í málum sem snerta eftirlit með framkvæmdarvaldinu.

Við skulum bara leyfa landsmönnum að dæma hvort það hafi ekki komið sér vel. Við getum farið yfir þá opnu nefndarfundi sem hafa verið haldnir. Lögum samkvæmt þarf alltaf að vera opinn fundur um skýrslu peningastefnunefndar. Við köllum ekki eftir því. Það er lögum samkvæmt. Hvers vegna? Jú, peningastefnunefnd er að upplýsa þingið um upplýsingar sem landsmenn hafa réttmæta ástæðu til að fá. En síðan hefur verið opinn fundur um skipan dómara í Landsrétt. Var ekki gott að við fengum það? Meira að segja dómsmálaráðherra kallaði sjálf eftir því. Það var opinn fundur um varðveislu sönnunargagna í sakamálum sem lögreglan var að týna. Var ekki gott að við héldum þann opna fund? Upplýsingar komu fram, menn þurftu að rökstyðja hvernig þeir gerðu hlutina og viðurkenndu að þeir þyrftu að gera hlutina betur. Það var fundur varðandi tjáningarfrelsi síðasta haust vegna þess að það var lagt lögbann á Stundina. Það var opinn fundur um uppreist æru þar sem foreldri fórnarlambs alvarlegs kynferðisafbrots gafst kostur á að koma fyrir nefndina og upplýsa hana um hvað þyrfti að gera betur.

Það er alveg eins með þau mál sem þingið vísar til okkar þegar við erum að vinna í fastanefndum og við eigum að athuga þau og mynda okkur skoðun á þeim. Þegar hagsmunaaðilar koma fyrir nefndina ættu þeir að upplýsa ekki bara okkur heldur líka landsmenn opinberlega um hver afstaða þeirra sé til þess hvernig við eigum að vinna málið. Ef einhver segir að eitthvað annað vegi þyngra en það skulum við líka hafa þá umræðu opna.

Ég legg til að við vinnslu þessa máls í allsherjar- og menntamálanefnd verði þeir fundir að jafnaði opnir.