148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[16:45]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór stuttlega yfir það í ræðu minni að mér hugnaðist einmitt í kjölfar þessarar umsagnar að setja grein í viðbót inn í frumvarpið sem myndi orða það á einhvern þann mátulega lögfræðilegan hátt að þar sem væri vísað til laga um helgidagafrið í kjarasamningum skyldi það túlkað þannig að þeir vísuðu til laga um 40 stunda vinnuviku. Auðvitað varðar það þessa frídaga. Það er alltaf það sem er verið að tala um, það eru þessir blessuðu frídagar.

Upplýsingar sem ég fékk þegar ég lagði þetta fyrst fram voru þær að réttarkerfið okkar virkar þannig að ef það yrði vísað í kjarasamninga yrði það alltaf túlkað út frá því hvenær þeir kjarasamningar væru gerðir. Ef við myndum samþykkja þessi lög og síðan yrði vísað í lög um helgidagafrið þá væri voðinn vís. En varðandi þá samninga sem vísa nú í lög um helgidagafrið hvað varðar þessa frídaga yrði það alltaf fyrir dómstólum túlkað þannig að um væri að ræða þessa frídaga, enda eru þeir færðir úr lögum um helgidagafrið inn í lög um 40 stunda vinnuviku.

Ég lagði sjálfur til að þetta yrði sett einhvern veginn inn í frumvarpið en mér var einfaldlega sagt af mjög fróðum lögfræðingum að það væri með öllu óþarfi, þetta atriði sérstaklega væri ekki raunverulegt áhyggjuefni með hliðsjón af því að frídagarnir eru teknir úr lögum um helgidagafrið og settir inn í lög um 40 stunda vinnuviku, þau lög sem eru hugsuð til þess að vernda réttindi vinnufólks. Lög um helgidagafrið leggja hins vegar alls konar bönn við þeim réttindum. Ég efast um að slíkt finnist í kjarasamningum, enda er ég ekki viss um að kjarasamningar ættu að hafa heimild til að banna fólki utan þeirra sömu samninga að spila bingó á heilögum dögum.