148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[16:47]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að skýra þetta betur. Ég treysti því að sú þingnefnd sem málið fær til umfjöllunar, hv. allsherjar- og menntamálanefnd, skoði þessi atriði. Þær umsagnir sem við höfum verið að ræða um hér og ég vitnaði til áðan eru um frumvarpið þegar það var lagt síðast fram á 145. löggjafarþingi. Þar er sagt „ef það hefur áhrif“, talað um 200 kjarasamninga og því velt upp að mögulega gæti frumvarpið haft einhver áhrif.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann og aðrir flutningsmenn hafi kannað þetta eitthvað nánar síðan frumvarpið var lagt fram síðast. Hefur verið kannað hvort þær áhyggjur sem BSRB hefur um að þetta sé beinlínis í kjarasamningum séu réttmætar?