148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[16:48]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nú aðallega kannað það í gegnum þá sérfræðiaðstoð sem við höfum aðgang að á Alþingi við endurframlagningu málsins. En áhyggjurnar eru til staðar og ég vona að það sé alveg skýrt að það er enginn vilji til þess að ganga fram hjá þeim.

Nefndin síðast skilaði ekki nefndaráliti og málið fór aldrei lengra en til nefndar. Ég geri algjörlega ráð fyrir því að ef einhverjar efasemdir eru um að þetta frumvarp uppfylli ekki það grunnskilyrði flutningsmanna sjálfra að það hafi ekki áhrif á vinnuréttindi þá leggi nefndin fram tillögur til úrbóta á því.

Ég verð að segja eins og er að ég heyri þessar áhyggjur mjög mikið, hef þessar sömu áhyggjur og ber virðingu fyrir þeim, en hef ekki rekist á raunverulega ástæðu fyrir þeim. Það er náttúrlega vegna þess að lög um helgidagafrið eru barn síns tíma í þessu sambandi, en nýju lögin um 40 stunda vinnuviku eiga að hafa tekið við. Ég skil alveg að fólk hafi áhyggjur af þessu og ber fulla virðingu fyrir því, en ég tel ekki lengur eftir mína eftirgrennslan að þetta sé raunverulegt vandamál.