148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[16:52]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, spurninguna. Markmið þessa frumvarps er fyrst og fremst að afnema þetta bann, það er aðalatriðið þarna. Við lestur laganna sést mjög augljóslega, alla vega af þeim sem hér stendur, að þessi lög eru barn síns tíma og eiga ekkert erindi lengur í nútímasamfélagi. Það er þessi auðvelda lausn við að afnema það bann, færa dagana bara inn í lög um 40 stunda vinnuviku, þá þyrfti ekkert að hafa þessi lög yfir höfuð, það var leiðin sem við fórum.

Það hefur ekki verið rætt neitt sérstaklega, alla vega ekki á neinum formlegum fundum meðal flutningsmanna, hvort meira frjálsræði ætti að vera í því hvaða frídaga fólk mundi vilja taka sér, enda ekki í sjálfu sér markmið frumvarpsins að hafa einhver áhrif á það, heldur miklu frekar að afnema þessi bönn.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það ætti að vera frjálsræði í því. Þá er komið inn á atriði sem mér hefur alltaf fundist svolítið skrýtið og á sér eflaust mjög góðar sögulegar skýringar, það er samspil milli landslaga, löggjafarinnar, og kjarasamninga. Segjum sem svo að við mundum leggja fram frumvarp um að við ætlum að breyta þessum frídögum, hafa þá einhvern veginn öðruvísi, samkvæmt siðum okkar eigin trúarsafnaðar eða eitthvað því um líkt, þá finnst mér líklegt, mín reynsla er sú, að verkalýðshreyfingarnar myndu segja: Verið þið ekkert að skipta ykkur af þessu, kæru þingmenn, þetta er okkar mál, við ætlum að ákveða þetta, þið megið síðan setja lög til að undirstrika það.

Mér finnst það svolítið skrýtin nálgun, en gott og vel, sé eitthvert gott sögulegt samhengi fyrir því — en það er kannski umfram efni þessa frumvarps — mundi ég alveg styðja einhverjar hugmyndir í því. Mér finnst óttalega skrýtið svo ekki sé meira sagt að tiltekin trúarbrögð, hvað þá helgidagar þeirra, séu yfir höfuð nefnd í landslögum.