148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[16:57]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni og meðflutningsmönnum hans fyrir þetta frumvarp sem mér finnst allrar athygli vert. Mér sýnist í fljótu bragði að ég sé nú frekar fylgjandi efni þess og muni að öllum líkindum geta stutt það. Það er ekki verið að hrófla við frídögum í sjálfu sér með frumvarpinu eins og fram hefur komið og það er ekki verið að raska helgihaldi. Eftir sem áður geta menn stundað sína trú og sitt helgihald óáreittir.

Núgildandi lög eru náttúrlega um margt sérkennileg og menn nota hér orðalagið barn síns tíma. Það er svolítið spaugilegt að lesa skilgreiningar á því hvað má og hvað má ekki á tilteknum dögum og hvað er talið trufla helgihald. Listsýningar, tónleikar, leiksýningar og kvikmyndasýningar, það virðist vera í lagi. Það má skoða list, það má leita sér upplýsinga, en það má ekki spila bingó og önnur hliðstæð spil. Ég velti fyrir mér ef það væri tölvuleikjamót t.d., Counter-Strike, er það truflun á helgihaldi að vera í því?

Nú er helgihald af ýmsum toga. Það getur verið kristið helgihald og í öðrum siðum geta menn átt sína helgidaga. Þessi breyting raskar því ekki að menn eiga rétt á sínu helgihaldi í friði. Við erum með ákvæði í lögum sem segja að það eigi að virða trúfrelsi, það eigi að virða skoðanir. Mig langar að spyrja hvort þingmaðurinn hafi eitthvað velt því fyrir sér hvort það sé ástæða til þess að herða á eða hnykkja á því með einhverjum hætti að menn eigi að hafa frið til síns helgihalds en kannski ekki með þessum ákveðnu reglum.