148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mín reynsla er sú af trúarbragðaumræðu að trúfrelsi er auðveldlega ruglað saman við réttinn til að stjórna lífi annarra, eitthvað sem ég hygg að sé ekki hluti af trúfrelsi eins eða neins. Það er ekki hluti af trúfrelsi mínu að ákveða hvað hv. þingmaður borðar í kvöldmat eða hvort hann kýs að spila bingó, nú eða Counter-Strike. Það er ekki mitt trúfrelsi. Þvert á móti, ef eitthvað er þá væri það hluti af trúfrelsi hv. þingmanns að taka upp einhverjar slíkar iðjur óháð því hvað mér fyndist um það. Þannig virkar frelsið. Frelsið er ekki heimild til að banna öðrum.

Ég veit ekki betur en núgildandi trúfrelsisákvæði dugi ágætlega fyrir alla aðra söfnuði og öll önnur trúarbrögð og lífsskoðunarfélög. Ég hef alla vega ekki rekist á að það sé kvartað undan því að það sé svo mikið af bingóspili eða listdansi eða hvað það er að tiltekin trúfélög eigi erfitt með að iðka trú sína nákvæmlega eins og þau vilja og í þeim friði sem þau vilja, eitthvað sem ég tel, eins og greinilega hv. þingmaður, til sjálfsagðra réttinda. En ég hygg að þau réttindi séu nú þegar tryggð með ákvæði um trúfrelsi í stjórnarskrá. Ég held að það dugi.

Að því sögðu þá er ég alveg opinn fyrir hugmyndinni um að skoða einhverjar leiðir til þess að hnykkja á slíku, en mér finnst oft slá saman þarna hugmyndum um trúfrelsi og réttinum til að stjórna trúarlífi annarra.