148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[17:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Hér er rætt um að fella úr gildi helgidagalöggjöfina. Á sínum tíma var sjálfsagt að gera breytingar á helgidagalöggjöfinni í þá veru að rýmka ákvæðin um verslun og þjónustu á lögbundnum helgidögum. Sérstaklega vegna hins aukna fjölda ferðamanna, en einnig vegna þess að það var ósamræmi í því að geta ekki keypt t.d. mjólkurvörur byggi maður í Reykjavík, en það var vandræðalaust á Seltjarnarnesi og í öllum þeim bensínsjoppum sem opnar voru um allt land og voru með nauðsynjavörur til sölu.

Ég tel hins vegar rangt að segja að helgidagalöggjöfin kalli alla helgidaga sem byggja á kristinni trúariðkun helgidaga þjóðkirkjunnar. Ástæða er til að leggja inn í umræðuna að við erum enn að tala um helgidaga sem tengjast öllum þorra landsmanna, einnig innflytjendum og þeim sem starfa hér tímabundið. Fljótt á litið er verið að tala um níu af hverjum tíu í þessu landi.

Sú áhersla sem flutningsmaður, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, leggur á launasamninga í tengslum við þetta mál er villandi að mínu mati. (HHG: Heyr, heyr.) Engin rök í málinu benda á að þeir aðilar sem semja um kaup og kjör geri ekki athugasemd við þessa breytingu vegna þess að hægt sé að fella fjölda frídaga inn í lögin um 40 stunda vinnuviku og inn í launasamninga. Það er að mínu mati í besta falli aðferð til að slá ryki í augu fólks.

Í fyrsta lagi varðar helgidagalöggjöfin mikinn meiri hluta þjóðarinnar sem er þá hunsaður með því að leggja lögverndina niður. Í öðru lagi eru helgidagar og hátíðisdagar hluti af hinum almenna menningararfi þjóðarinnar. Í þriðja lagi treystir hún samskipti okkar við nágrannaþjóðirnar sem búa við sams konar löggjöf. Þau rök að leggja þurfi niður lög í landinu vegna fjölgunar ferðamanna eru engin rök.

Það er sjálfsagt að skoða ákvæði varðandi bingó. Á sínum tíma leit löggjafinn svo á að bingó væri í raun fjárhættuspil sem bæri að banna. Það atriði er sannarlega barn síns tíma. Sömuleiðis er umhugsunarefni hvort ekki sé nú þegar skautað fram hjá ákvæðinu um dansleiki vegna þess að tónleikar eru leyfðir. Ég hygg að mjög erfitt sé að greina á milli þess hvort um tónleika eða dansleiki er að ræða ef leikin er dansmúsík á tónleikum og áhorfendur hreyfa sig í takt. Þessa hluti er sjálfsagt að endurskoða og breyta eftir þörfum, svo lengi sem þeir skerða ekki rétt þeirra sem trúa til að sinna sínum helgiathöfnum í opinberu rými á lögbundnum helgidögum og hátíðum.

Í rauninni er hið eina sem breyta þarf í lögum um helgidaga og helgidagafrið að taka þarf fram að hér er ekki um að ræða helgidaga þjóðkirkjunnar heldur helgidaga almennt. Þótt orðalagið „helgidagar þjóðkirkjunnar“ hafi verið fest í lög byggir það eingöngu á þeim sögulega bakgrunni að þegar konungur hins danska ríkis bannaði öllum þeim sem tilheyrðu öðru trúfélagi en hinu evangelíska-lúterska að hafa vetursetu á Íslandi var ekki um neina aðra helgidaga að ræða en þá sem tilgreindir voru hjá því trúfélagi. Þegar þetta trúfélag fékk heitið þjóðkirkjan í stjórnarskránni 1874 mótaði það löggjöfina, þó að sama stjórnarskrá tryggði jafnan rétt allra trúfélaga.

Að þessu leyti er rétt að tala um að lögin séu barn síns tíma en annars ekki.

Rétt er að hafa í huga að lög um helgidaga og vernd þeirra eru ekki eitthvert séríslenskt fyrirbæri. Lög um þau efni eru t.d. til meðal allra ríkja í vesturhluta Evrópu, nema í Frakklandi er sérstök vernd daganna ekki lögbundin. Sannarlega er hluti þeirra laga bann við því að trufla trúariðkun á helgidögum kristinna safnaða. En viðhald laganna á lögbundnum helgidögum er annars vegar vegna þess að helgidagar og hátíðisdagar eru hluti af menningararfi þessara landa, og hins vegar til að standa vörð um ákveðna hrynjandi í mannlífinu sem tryggir ekki aðeins fólki frítíma heldur dregur fram gildi þess að halda hátíðir, hvort sem það er gert á trúarlegum forsendum eða ekki.

Eins og fram kemur í 1. gr. laganna er tilgangur þeirra sem hér segir, með leyfi forseta:

„Um helgidagafrið er mælt í lögum þessum í því skyni að vernda helgihald og til að tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar innan þeirra marka er greinir í lögunum.“

Síðan er í 2. gr. tilgreint hvaða dagar séu helgidagar þjóðkirkjunnar. Það sem hér eru kallaðir helgidagar þjóðkirkjunnar er að sjálfsögðu sameign allra kristinna trúfélaga. Enginn tilgreindur helgidagur kristinnar trúar er sérstakur fyrir þjóðkirkjuna. Þess vegna verður að hætta að tala um þjóðkirkjuna í þessu samhengi. Rétt er að tilgreina í lögum hvaða helgidagar eru lögbundnir helgidagar. Hér þarf að gera þá breytingu að helgidagar séu í fyrsta lagi ekki kenndir við þjóðkirkjuna vegna þess að allar kristnar kirkjudeildir hafa þessa sömu daga. Síðan þarf að bæta við sérstökum helgidögum þjóðarinnar, sem eru alla vega 17. júní, 1. desember og 1. maí. Rétt er að fella jafnframt inn í þessi lög hverjir skuli vera fánadagar þjóðarinnar. Í 3. gr. III. kafla laganna er fjallað um vernd helgidaganna og helgidagafrið. Með leyfi forseta:

„Óheimilt er að trufla guðsþjónustu, kirkjuathöfn eða annað helgihald með hávaða eða öðru því sem andstætt er helgi viðkomandi athafnar.“

Í 4. gr. er tilgreint hvað óheimilt er að gera á þessum tilgreindu dögum.

Þessar reglur hafa verið rýmkaðar verulega, einkum hvað varðar opnun verslana og annarra þjónustufyrirtækja, en sjálfsagt er að skoða það atriði betur.

Í greinargerð með frumvarpinu segir svo, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að lög um helgidagafrið, nr. 32/1997, falli brott. Markmið laganna er að vernda helgihald og tryggja frið, næði og hvíld og takmarka afþreyingu fólks á helgidögum þjóðkirkjunnar. Flutningsmenn sjá ekki ástæðu til að takmarka frelsi fólks með lögum þannig að það varði sektum að standa að t.d. bingói, happdrætti, dansleikjum eða öðrum samkomum á helgidögum þjóðkirkjunnar.“

Frítökuréttur og hvíldartími er tryggður í kjarasamningum en til að réttur launafólks til frídaga eigi styrka lagastoð er lögð til orðalagsbreyting á 6. gr. laganna um 40 stunda vinnuviku þannig að í staðinn fyrir að þess sé getið að helgidagar þjóðkirkjunnar séu frídagar verði umræddir dagar taldir upp í ákvæðinu sem lögbundnir frídagar.

Því er til að svara að það kann að vera skynsamlegt að tilgreina í lögum um 40 stunda vinnuviku hvaða frídagar skuli vera bundnir í lögum. En það kemur engan veginn í staðinn fyrir inntak og áherslur helgidagalöggjafarinnar. Sú nauðsyn er óbreytt að vernda þurfi annars vegar rétt fólks til hvíldar og afþreyingar og að hins vegar skuli samkomuhald allra trúfélaga til trúariðkunar sinnar njóta verndar enda stríði trúariðkunin ekki gegn almannareglu.

Stjórnarskráin tryggir öllum rétt til að iðka trú sína. Í greinargerðinni segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Í ljósi fyrrnefndra breytinga á samfélaginu hvað varðar trúar- og lífsskoðanir fólks og ekki síður í ljósi stóraukins ferðamannastraums til landsins telja flutningsmenn lög um helgidagafrið vera úreltan lagabókstaf og að löngu sé orðið tímabært að nútímavæða fyrirkomulagið.“

Því er til að svara, frú forseti, að breytingar á trúar- og lífsskoðunum fólks eru ekki jafn stórkostlegar og flutningsmenn telja ef horft er til fjölda þeirra sem skráðir eru í þessi félög. Hvað varðar ferðamenn vill svo til að mjög stór hluti ferðamanna er einmitt kristinnar trúar og gengur glaður í guðs hús inn. Ekki má rugla því saman við þörf gesta til að geta keypt sér mat og drykk þegar þá svengir, sem nauðsynlegt er að gæta að. Enn segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Tilgangur laga um helgidagafrið er að tryggja að fólk sem vill stunda helgihald á sunnudögum og helgidögum fái frið til þess. Flutningsmenn telja ástæðulaust að takmarka með lögum frelsi fólks á tilteknum dögum til þess eins að annað fólk fái þá frið til að stunda helgihald. Það hlýtur að stríða gegn því frjálsa samfélagi sem við viljum hafa í hávegum.“

Það er sannarlega alveg rétt að tilgangur laganna er m.a. að tryggja að fólk sem vill stunda helgihald fái frið til þess. Það er líka alveg rétt að frelsi eins á ekki að skerða frelsi annars. Þess vegna væri beinlínis rangt að setja í lög að á meðan trúað fólk sinnir sinni trúariðkun skuli öllum hinum sem ekki eru sömu trúar meinað að sinna hugðarefnum sínum eða gerðir skyldugir til að gera ekki neitt. En þetta frelsi gildir að sjálfsögðu á báða vegu og jafnt fyrir þau sem vilja sinna trúariðkun sinni í opinberu rými og þau sem vilja það ekki.

Það frelsi þarf að vera tryggt í lögum.

Það er heldur ekki nóg að tilgreina í lögum um lengd vinnuvikunnar eða í kjarasamningum hvaða dagar eru lögbundnir frídagar. Og það er heldur ekki nóg að í hegningarlögum sé tryggt að ekki megi trufla helgihald trúfélaga og óheimilt sé að fara ósæmilega með kirkjugripi.

Frú forseti. Niðurstaða mín er þessi: Það er sjálfsagt að gera minni háttar lagfæringar á lögum um helgidagafrið en fráleitt að fella þau brott.