148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór yfir að þetta ættu ekki að vera helgidagar kirkjunnar, ég ætla bara að árétta það að þetta eru helgidagar þjóðkirkjunnar; hún er stofnun, ríkisstofnun. Ég tel að almættið þurfi ekki á ríkisstofnun að halda til þess að kristnir menn geti iðkað sína trú og tilbeðið sinn guð og fengið hann til að heyra sínar bænir.

Það sem mér finnst standa eftir af ræðu hv. þingmanns er: Hvað með öll hin trúfélögin? Af hverju þurfa kristnir menn þessa sérstöku löggjöf? Vegna þess að við erum með kristna menningararfleifð? Auðvitað er saga Íslands samofin kristinni sögu. Um það verður ekki deilt, hvorki á forsendum kristninnar né sögunnar. En það er ekki löggjöfin sem gerir það að verkum, lög um helgidagafrið gera það ekki að verkum, að fólk les biblíuna eða fer í kirkju.

Þau rök að meiri hluti almennings sé kristinn, ja, ég velti þá fyrir mér hvort hv. þingmanni þyki það þá eðlilegt að hafa sérstök forréttindi fyrir þá trúarhópa sem eru í meiri hluta í öðrum löndum. Mér finnst það ekki. Mér finnst það fráleitt hvernig það er í sumum löndum, svona ríkis-íslam. Mér finnst það fráleit pæling. Sömuleiðis reyndar að hafa ríkistrú á Íslandi.

Og það er engin árás á kristna trú. Þessi lög eru ekki um frelsi kristinna manna, þau eru um forréttindi þjóðkirkjunnar, þeirrar tilteknu kirkju. Það kemur fram í lögunum sjálfum. Allt tal um kristna arfleifð breytir þeirri staðreynd ekki.

Eins og hv. þingmaður kom inn á sjálfur er nú þegar í almennum hegningarlögum ákvæði sem ver alla trúarsöfnuði fyrir ófriði og óspektum og því um líku, og ég er sammála hv. þingmanni um að kristnir menn eiga að njóta þess réttar sem allir aðrir. Ég spyr hv. þingmann: Af hverju þarf þessa sérstöku löggjöf fyrir þjóðkirkjuna eða kristna menn? Hvers vegna ekki sömu löggjöfina fyrir alla, óháð því hversu margir landsmenn teljast til þeirra trúarbragða?