148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[17:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni Helga Hrafni Gunnarssyni. Ég lít ekki svo á að hér sé um forréttindi að ræða. En ég hef hins vegar lagt áherslu á að nauðsynlegt sé að breyta þessum lögum á þann veg að ekki sé sérstaklega rætt um þjóðkirkjuna. Þarna þurfi að koma inn breyting sem kveður á um að rætt sé um kirkjuna.

Það er nú einu sinni þannig að meiri hluti Íslendinga er kristinn. (HHG: Hvítir líka.) Það er hvergi minnst á litaraft manna í því sem ég sagði. En rétt er að árétta að eins og kom fram í minni ræðu lýtur þetta einnig að menningarsögulegum arfi þjóðarinnar. Við erum kristin þjóð, ekki satt? (HHG: Nei.) En það að flutningsmaður líti svo á að hér sé um forréttindi að ræða, ég er ósammála því. Ég tel hins vegar rétt að gera ákveðnar breytingar. En að fella lögin brott tel ég óráð og ég hef áréttað það hér.