148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[17:19]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þvílík tilætlunarsemi! Það fer svo í taugarnar á mér að ég á erfitt með að halda ró minni þegar hv. þingmaður talar um að við séum kristin þjóð. Þjóðir eru ekki kristnar. Einstaklingar eru kristnir. Meiri hluti íslensku þjóðarinnar er vissulega kristinn, en þjóðin sem slík er ekki kristin. Ég er Íslendingur, ég er hluti af þessari þjóð og ég er ekki kristinn. Það gerir mig ekki á neinn hátt að minni Íslendingi. Og ég bara þoli það ekki að talað sé svona um þann hluta íslenskrar menningar og þjóðar sem er einfaldlega ekki kristinn.

Hv. þingmaður ræður því ekki hvaða trúarbrögð ég aðhyllist, eða hvaða trú ég tilheyri. Það er ég sem ræð því. Og ég frábið mér svona málflutning.

Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni. Hvers vegna eiga þessi lög — hv. þingmaður vill ekki kalla þau forréttindi, gott og vel, það má þá gjarnan finna eitthvert orð sem hann myndi vilja nota yfir það — að heyra sérstaklega undir kirkjur, kristna, kristni, þjóðkirkju eða hvaðeina? Af hverju ekki alla óháð trúarbrögðum? (Forseti hringir.) Hvað er að því að hafa jafnræði í trúarbrögðum þannig að allir njóti sama réttar án tillits til trúarbragða? Hvað er svona ofboðslega hræðilegt við það?