148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[17:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það ríkir trúfrelsi á Íslandi. Ég lít svo á að við séum kristin þjóð. Meiri hluti þjóðarinnar er skráður í þjóðkirkjuna. Það er í stjórnarskránni að stjórnvöld skuli vernda og styðja við þjóðkirkjuna. Þá hljótum við að vera kristin þjóð. (HHG: Nei.) En hv. þingmanni er að sjálfsögðu frjálst að trúa á annað en Jesú Krist, það er enginn að mótmæla því hér. (HHG: Ó, takk!)

Ég ætla ekki að hártogast við hv. þingmann um þetta. En ég hef sagt áður og endurtek það að ég tel þessi lög nauðsynleg, m.a. til að styðja við menningarlegan og trúarlegan arf íslensku þjóðarinnar sem fagnaði þúsund ára kristnitökuafmæli árið 2000. Ég lít ekki svo á að þetta séu forréttindi en þetta eru mikilvæg lög sem eiga að mínum dómi að vera í gildi og er óþarfi að fella á brott. En það er sjálfsagt að gera ákveðnar breytingar. Það hef ég lagt áherslu á. Mér finnst að hv. þingmaður eigi bara að fagna því.