148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[17:22]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns og er að reyna að átta mig á því hvað það er sem hann er að segja og myndi vilja fá frá þingmanninum svar við því. Hann myndi sem sagt leggja til að í 1. gr. laga um helgidagafrið eins og þau eru núna yrði fjarlægt þetta um helgidaga þjóðkirkjunnar, þetta væri bara helgidögum almennt. Helgidögum á Íslandi eða vill hann halda inni kirkjunni? Þingmaðurinn jánkar því. Hann vill halda inni kirkjunni.

Þá get ég bara sagt að þetta eru ekki helgidagar fyrir allar kirkjur. Ekki t.d. kaþólsku kirkjuna. Konan mín er frá Perú, hún er alin upp við kaþólskan sið og þegar hún kemur til Íslands er hún mjög hissa: Þið eruð með dag númer tvö í páskum og annan dag jóla og fleira. Þetta eru ekki almennt helgidagar kristninnar. Þetta eru aftur á móti helgidagar íslensku þjóðkirkjunnar. Ef þetta ætti að heyra undir alla kristna menn þyrfti samkvæmt því sem þingmaðurinn segir að breyta því í átt til helgidaga kristinna söfnuða. Kaþólskur kristinn söfnuður er sá stærsti í heiminum. En þetta er kannski svolítil hártogun. Þetta er bara til að benda á að þetta eru þjóðkirkjuhelgidagarnir en ekki almennt fyrir kristna menn, ef við gætum verið sammála um það. Þingmanninum er auðvitað í sjálfsvald sett með það, hann ætti kannski að skoða það. Við skulum vera með samræmi í því hvernig við viljum breyta þessu.

Þá kemur að hinu. Fyrir mér snýst þetta bara um að fólk hafi svigrúm og næði til að sinna því sem því er heilagt. Það er mikilvægt. En samhliða sé öðrum ekki bannað að sinna því sem þeim er heilagt og mikilvægt í lífinu eða gefur þeim lífsfyllingu, sama hvað það er, á sama tíma.

Skildi ég það þá rétt hjá þingmanninum að hann sé hlynntur því að fella brott öll ákvæði sem banna öðrum að sinna sínu? Þá erum við að tala um ákvæði í (Forseti hringir.) 4. gr. um bann við ýmsu á þeim tíma sem er verið að sinna helgihaldi, hvað þessar tímasetningar varðar, (Forseti hringir.) þá er öðrum bannað að sinna því sem er þeim kært.