148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[17:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni. Hann spurði að því hvers vegna þetta þyrfti að vera lögbundið. Við, löggjafarsamkundan, teljum ýmislegt þurfa að vera í lögum. Er það ekki rétt hjá mér varðandi íslenskt mál að það er lögbundið og réttritun og annað slíkt?

Þetta er í mínum huga ósköp einfalt mál. Þarna er verið að vernda ákveðinn trúar- og menningarlegan arf þjóðarinnar sem viðgengst í nágrannalöndum okkar. Búið er að koma til móts við þarfir atvinnulífsins, verslunarinnar, þjónustunnar. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna þarf að þá að ganga lengra í þeim efnum, hvers vegna fella þarf þessi lög algjörlega brott.

Ég hef sagt það hér að ég sé tilbúinn til þess að skoða hvort ekki megi taka eitthvað út af því sem talið er óheimilt í dag. Að sjálfsögðu. Það er alveg klárt í mínum huga að það er ekkert að því að skoða þessa hluti og fara yfir þá, en ég skil ekki alveg sjónarmið flutningsmanna um að fella þetta algerlega brott. Þessi hefð hefur, eins og ég segi aftur, fylgt þjóðinni og er trúarlegur og mikilvægur menningarlegur arfur sem ég held að sé alveg ljóst að þurfi að varðveita í lögum. Það er mín skoðun.