148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[17:43]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna í þessu máli. Mér finnst mikilvægt að árétta nokkra hluti og bregðast við sumum orðum sem fallið hafa hér.

Eitt af því sem fram kom í máli hv. þm. Birgis Þórarinssonar, og enn skýrar í andsvörum, var sú tillaga að í stað þess að þetta væru kallaðir helgidagar þjóðkirkjunnar þá yrðu þeir kallaðir helgidagar kirkjunnar. Nú vill svo til að það er ákveðin ríkisstofnun sem heitir þjóðkirkjan, þjóðkirkja Íslands, sem er sérstaklega vernduð með þessu ákvæði í stjórnarskrá. Þessu vonda, vonda ákvæði í stjórnarskrá, þ.e. þjóðkirkjuákvæðinu, ríkiskirkjuákvæðinu.

Það vill svo til að stjórnarskráin okkar er ekki smekkfull af slíkum göllum, hún inniheldur líka góða hluti eins og þann að við séum jöfn fyrir lögum, eins og 65. gr. kveður á um. Þar segir, með leyfi forseta:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Nú átta ég mig á því að það vantar auðvitað þriðja kynið þarna eða órætt kyn eða hvaðeina.

Það myndi að öllu jöfnu vera bannað fortakslaust að vera með einhverja sérstaka mismunun í lögum á grundvelli trúarbragða en við erum með þessa leiðindagrein þarna, sem er 62. gr. þar sem segir með leyfi forseta:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

Nú veit ég ekki hvort það kemur fram í tillögu sem fram kom áðan, að einfaldlega skuli kalla þjóðkirkjuna kirkjuna í staðinn fyrir þjóðkirkjuna, þ.e. þegar um er að ræða sömu stofnun, eða bara að kalla hana eitthvað annað, eða hvort tillagan felur í sér að lögin hygli sérstaklega kristnum mönnum. Ég held að í því fælist mismunun á grundvelli 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi stofnun hefur þessi forréttindi. Það eru forréttindi vegna þess að þessi klausa er í stjórnarskrá. Ef 62. gr. væri ekki þarna væri óhugsandi að hafa þjóðkirkju.

Ef menn vilja fara eitthvað út fyrir þá vernd sem er að finna í 62. gr. þurfa þeir að fara að kljást við 65. gr. Það er nú ekki í fyrsta sinn sem þessar tvær greinar stangast á. Það kemur líka fram í öðru ágætu frumvarpi um afnám 5. gr. laga um Kristnisjóð, þ.e. þess ákvæðis að sveitarfélög þurfi að veita ókeypis lóðir undir kirkjur. Það er mál sem ég og fleiri lögðum fram, m.a. Viðreisn.

Það er alltaf núningur milli þessara tveggja greina. Svo talar maður við einhverja lögfræðinga um það og lögfræðingar hafa tilhneigingu til að útskýra hlutina á lagamáli sem vitleysingar eins og ég skilja ekki endilega mjög vel. En með tíð og tíma lærir maður að skilja að lögfræðin er einhvern veginn þannig að lagamál er ekkert endilega í miklu samræmi við orðanna hljóðan ef maður ætlar að lesa hlutina út frá hinni svokölluðu almennu skynsemi. Út frá hinni svokölluðu almennu skynsemi er mjög augljós mótsögn á milli 62. gr. og 65. gr. En vegna þess að þetta er stjórnarskráin og stjórnarskráin skilgreinir hvernig lögin okkar virka, þá virkar það. Þess vegna virkar það lagalega þótt rökfræðilega sé það úti á túni.

Svo er hægt að koma hingað í ræðu og segja að það sé svo mikilvægt að fólk hafi rétt til þess að iðka trú sína og hafa frið til þess og þess vegna þurfi þessi lög um helgidagafrið og allt það. Gott og vel, ég er sammála því. Það eina sem mér er fyrirmunað að skilja, nema með vísan til algjörrar forréttindablindu meiri hluta sem vanur forréttindum, er hvers vegna í ósköpunum þarf að taka út fyrir sviga einhver ein tiltekin trúarbrögð, hvað þá eina tiltekna ríkisstofnun.

Nú reyni ég að reiðast ekki aftur eins og ég gerði áðan, þegar vísað er til þess að meiri hluti Íslendinga sé kristinn og meiri hluti Íslendinga sé í þjóðkirkjunni. Hvað með það? Jafnræði fyrir lögum snýst ekki um þeir sem eru í meiri hluta, fólkið sem er með ákveðinn stimpil fái meiri réttindi en einhverjir aðrir. Hvernig myndi fólk bregðast við ef einhver stingi upp á — ja, meiri hluti Íslendinga er hvítur? Er það ekki svolítið ógeðslegt? Er það ekki fyrir neðan allar hellur? Mér finnst það og ég þoli ekki slíkan málflutning. Jafnræði fyrir lögum snýst um það að við erum jöfn fyrir lögum, eins og 65. gr. stjórnarskrárinnar segir, án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Hvað ef meiri hluti þjóðarinnar væri af ákveðnu kyni, segjum það? Hvað kemur í ljós ef 51% Íslendinga eru karlar og 49% konur eða öfugt? Hvað ef 1% eða 2% þar af væru hvorugt, heldur intersex? Ætlum við þá að segja kynið sem er í meiri hluta fái einhver sérstök réttindi?

Er engum hérna farið að líða jafn illa í maganum og mér af því að segja þessa hluti upphátt? Ég verð brjálaður af því að hugsa um þetta. Þjóðir eru ekki kristnar, það er ekkert hægt að segja að við séum kristin þjóð og það er ekki hægt að réttlæta forréttindi meiri hlutans á grundvelli þess að hann sé í meiri hluta. Það er andstætt hugmyndinni um jafnræði fyrir lögum, virðulegi forseti. Og það er augljóst. Það er einhvern veginn sú tilhneiging hér til að koma í pontu og láta síðan eins og því komi þetta ekki við að þeir sem eru hluti af þessum tiltekna meiri hluta vilja auðvitað hafa forréttindin. Af hverju sér maður þá ekki einhvern úr minni hlutanum sem ekki er kristinn, koma hér upp og segja: Ja, vitið þið að mér finnst samt að meiri hlutinn þarna sem ég tilheyri ekki eigi að hafa sérstök forréttindi. Af hverju segir það enginn? Af hverju er það bara fólkið sem tilheyrir sjálft meirihlutaforréttindahópunum sem kemur og ver þau sömu forréttindi? Það er vegna þess að þetta er röklaust með öllu.

Ræða mín hér átti ekki að vera um samband ríkis og kirkju. Það vill bara svo til að í þessari umræðu hefur komið svo skýrt fram hvers vegna það er vandamál að við séum með þessa grein, 62. gr. stjórnarskrárinnar. Hún býr til svona vandamál, og bjó líka reyndar til vandamálið sem að leiðir af því að sveitarfélögum sé skylt að veita lóðir undir kirkjur. Auðvitað eigum við bara að vera jöfn fyrir lögum. Punktur. Búið. Hvað er ósanngjarnt við það?

Nú vill svo til að ég tilheyri ákveðnu félagi sem skilgreint er í lögum um slík félög, sem lífsskoðunarfélag, ekki að það komin neinum hér við á nokkurn hátt. Heyrið þið einhvern tímann einhvern hérna segja: Ja, mikið verður nú gott þegar mitt lífsskoðunarfélag er komið í meiri hluta, sem ég hygg að gerist einn daginn? Að þá muni sá sami hópur fara að berjast fyrir sérstökum forréttindum til handa því félagi? Ég held ekki. Sá sami hópur berst gegn forréttindum allra félaga. Hann vill hafa jafnræði allra trúfélaga. Hann vill engin sérstök réttindi fram yfir aðra, þvert á móti vill hann verja réttindi allra.

Það er skylda okkar hér að gera það, en ekki að hygla þeim meirihlutaforréttindahópi sem vill svo til að við tilheyrum sjálf. Það er fráleitt. Ég kem ekki hingað og heimta einhver forréttindi og sérmeðferð fyrir það lífsskoðunarfélag sem ég tilheyri. Það væri óheiðarlegt af mér að gera það.

Ég ætla að láta þetta duga, virðulegi forseti, en fagna því að við skulum taka þessa umræðu vegna þess að stundum finnst mér samband ríkis og kirkju vera eins og eitthvert ógeðslegt kýli sem þarf sprengja til þess að hlutirnir geti loksins farið að gróa.