148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[18:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Mér finnst hann enn á villigötum, bara svo það sé sagt. Ég lít enn á það þó að það sé sagt í greinargerðinni að þess skuli gætt að 40 stunda vinnuvika og frítaka og allt þetta sé í lagi, þá erum við þegar í þeirri stöðu, með gömlu lögin í gildi, að það sé ekki að virka. Hvíldartími t.d. verslunarmanna í desember er alls ekki að virka. Það er bara svoleiðis. Þetta eru þeir launþegar á Íslandi sem eru í hvað verstu færum til að verja sig alveg eins og þeir sem vinna í veitingageiranum. Þeir eru mikið aðflutt vinnuafl sem er jafnvel farið illa með og eru okkur Íslendingum til háborinnar skammar. Það er fólk sem getur ekki varið sig. Ef núna verður enn rekinn fleygur, því að rekinn er fleygur í þessi mörk með frumvarpinu, ég fer ekki af því, þá held ég að við hv. þingmaður getum verið sammála um að það sé verr farið af stað en heima setið. Ég ítreka hins vegar að auðvitað er það þannig að vissulega ber að endurskoða lög ef þau standast ekki tímans tönn eins og ég sagði áðan.

Ég spyr hins vegar hvers vegna ekki var tekið í þá hönd sem Prestafélagið rétti flutningsmönnum greinilega árið 2015 um að endurskoða lögin með einhverjum hætti. Ef það hefur verið gert leiðréttir hv. þingmaður mig. En ég spyr: Hvers vegna að efna til ófriðar um þetta mál þegar hægt er að vinna það í friði og ró? Það er það sem ég skil ekki.