148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú reynir hv. þingmaður að gera mig ábyrgan fyrir því að einhver annar sé ósammála mér um þetta mál. Ég er bara ósammála þeim sem vilja halda í þessi lög. Það er ekki flóknara en það. Og ég er þingmaður, kjörinn hér, og legg málið fram vegna þess að ég er þeirrar skoðunar. Flóknara er það ekki. Hv. þingmaður, kirkjunnar menn eða hverjir sem það eru, sem meðan ég man eru ekki allir kirkjunnar menn, verða bara að vera svolítið ósáttir við það.

Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að Samtök atvinnulífsins væru að sleikja út um og fór mikinn um vinnuréttindi. Ég ítreka aftur: Allt sem hv. þingmaður getur bent mér á í lögum um helgidagafrið sem varðar vinnuréttindi, sem hann telur að hverfi með því að afnema þessi lög, vil ég endilega fá að vita til að við getum sett það í lög um 40 stunda vinnuviku. Það er enginn eðlismunur á þessum lögum. Þau eru bæði í gildi. Við gætum tekið allar klausurnar, sett þær í endann á lögum um 40 stunda vinnuviku og það hefði sama lagalega vægið, geri ég ráð fyrir. Ég vona að enginn lögfræðingur sé að blikka mig hérna. (Gripið fram í.) Þess vegna er lagt til í frumvarpinu að þeir dagar verði færðir yfir vegna þess að hægt er að gera það. Það er ekkert mál að leysa það og fullur vilji er til þess. Markmiðið er að afnema bannið. Það er ekki að skerða vinnuréttindi fólks.

Hv. þingmaður spurði líka áðan hver forréttindi hans væru fyrir að vera í þjóðkirkjunni. Ég ætla að nefna þrennt. Hv. þingmaður fær ódýrari þjónustu athafnastjóra til dæmis. Þingmenn, kjörnir fulltrúar, gera sér sérstaka ferð, held ég tvisvar á kjörtímabili, ef ekki fjórum sinnum, til þjóðkirkjunnar til að ræða hagsmuni hennar sérstaklega, heimsækir engar aðrar trúarstofnanir. Síðan fá kirkjur, upprunalega þjóðkirkjunnar, en núna er það umdeilt, samanber annað mál sem Píratar og Viðreisn eru að leggja fram, ókeypis lóðir frá sveitarfélögum. Það er fullt af forréttindum sem fólk fær fyrir að vera í þjóðkirkjunni. Það er hellingur af þeim. Þarna eru þrenn, bara svo það sé sagt.

Það sem ég skil ekki enn þá er (Forseti hringir.) hvað það er í lögum um helgidagafrið sem má ekki einfaldlega færa yfir í lög um 40 stunda vinnuviku. Samhugur er hér um að við viljum ekki skerða réttindi vinnufólks.