148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[18:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Enn þakka ég hv. þingmanni fyrir andsvarið. Nú er það ekki þannig að ég þurfi að líta á þennan stól hérna sem skriftastól. Ég get hins vegar sagt hv. þingmanni það að síðan ég varð þingmaður hef ég gert mér ferð í kirkju sem þingmaður út af einu atriði, það er til þess að taka þátt í því að lesa Passíusálma séra Hallgríms Péturssonar, sem er eitt mesta hnossgæti sem er til á íslenskri tungu og er í raun og veru á sama stað í mínum huga og Matteusarpassía Bachs, sem er stórvirki andans, alveg sama hvort menn trúa eða ekki.

Hvað er það í þessu lagafrumvarpi sem gæti ekki verið í lögum um 40 stunda vinnuviku? Nú er ég bara að benda hv. þingmanni á að við erum nú þegar í viðkvæmu ástandi með fólk sem stendur viðkvæmt og illa að vígi gagnvart atvinnurekendum sínum þrátt fyrir núgildandi lög um helgidagafrið og á erfitt með í fyrsta lagi að neita vinnu, á líka erfitt með að sækja rétt sinn og á erfitt með að fá tilsettan hvíldartíma. Ég óttast að verði losað enn um verði staða þess fólks einfaldlega enn verri en hún er núna. Kannski hef ég rangt fyrir mér, (Gripið fram í.)það kann vel að vera, en ég er bara að tala um raunveruleikann eins og hann blasir við mér núna með lög í gildi, lögin um helgidagafrið, og þá sé ég ekki betur en að það fólk, viðkvæmasta fólkið á vinnumarkaði, með lægstu launin, lengsta vinnutímann, myndi standa enn verr að vígi.

Ég segi aftur við hv. þingmann: Hvers vegna ekki að velja friðinn af því að hann er til? Hvers vegna ekki að gera nauðsynlegar breytingar sem allir eru sammála um að séu nauðsynlegar á lögum um helgidagafrið?