148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[18:51]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir spurninguna. Það er eðlilegt að spurt sé og gott að fá tækifæri til að segja það hér að þvert á móti er fullt traust til staðar á hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Þetta er þingsályktunartillaga og eðli slíkrar tillögu er að fá þingið á bak við umrætt mál hæstv. ríkisstjórnar. Ég tel að styrkur sé í því, þegar við fáum fram í stjórnarsáttmála fyrirætlanir hæstv. ríkisstjórnar, að kanna hug þingsins til þess og fá vonandi fullan stuðning þingsins á bak við það; það er styrkur í því að fylgja því þannig eftir. Ég held að það verði stuðningur við hæstv. ríkisstjórn ef það næst. Þess utan erum við hér, flutningsmenn tillögunnar, að sýna okkar hug í þessu máli. Það er því ekki hægt að lesa úr málinu eitthvert vantraust á að því verði fylgt eftir, heldur þvert á móti.