148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[18:55]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu, hún er auðvitað skiljanleg — hv. þingmaður er jú einu sinni í stjórnarandstöðu. Það verða fleiri en flutningsmenn þessarar tillögu sem fá tækifæri hér í þinginu til að fjalla um málið og þá fyrr en mögulega hefði orðið þegar ríkisstjórnin leggur fram frumvarp. Þess utan fær málið faglega umfjöllun í nefndinni og allt þingið og allir þingmenn fá að skoða málið og segja sinn hug.

Gefum okkur að málið fái þessa faglegu umfjöllun, að við fáum þá aðila og sérfræðinga sem fjalla um þessi mál til að segja sitt álit, að málið verði sent til umsagnar, að þingið fjalli um málið, segi sinn hug og álykti um það að fela hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að taka málið til meðferðar. Það hlýtur þá að vera stuðningur við málið í heild sinni og þær fyrirætlanir hæstv. ríkisstjórnar að klára það. Þá fengjum við væntanlega frumvarp í kjölfarið frá ráðherra. Það er óskastaða þeirra sem flytja þetta mál. Það er ekki flóknara en það.