148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[19:16]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir prýðisræðu og stuðning við málið. Ég skildi hv. þingmann þannig, að það sé hugur hjá hv. þingmanni og hans flokki að fylgja því eftir með frumvarpi og eins og hv. þingmaður segir í sinni ræðu, að stíga skrefið alla leið.

Ég var kannski ekki nægilega skýr í minni ræðu en taldi mig þó koma inn á það og það kemur reyndar fram hér í vísan til hv. fjármála- og efnahagsráðherra um að skoða kosti og galla, að það er ekki alveg einhlítt með útreikninginn á þessari vísitölu. Það er fyrst og fremst þess vegna sem við erum með málið í þessum umbúnaði.

Við hv. þingmaður höfum nú oft þegar við höfum skoðað efnahagsmálin skoðað hug sérfræðinga í þessu máli og einn er þar sem hefur látið þetta mál sig varða sem heitir Marinó G. Njálsson. Ég ætla að vísa í mjög góða grein frá honum í þessu máli þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Það er nauðsynlegt að reikna húsnæðiskostnað á einhvern hátt inn í neysluvísitölu.“

Hann er reiknaður í báðum vísitölum, bæði þessari samræmdu í Evrópu og hér en munurinn er þessi reiknaði liður. Þar að baki, í þessum eina lið, inni í húsnæðisliðnum öllum, eru býsna flóknir útreikningar. Og þegar við erum farin að tala um hagfræðihugtakið fórnarkostnað í slíkum útreikningum þá tel ég mjög óvarlegt að taka slíka ákvörðun án undangengins mats sérfræðinga á kostum og göllum þessa.

Ég ætla að fá álit hv. þingmanns á þessu.