148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[19:21]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni hans svör. Við hv. þingmaður höfum oft tekið umræðu um þessi mál. Ég get ekki annað en fagnað því og vissi það svo sem að við erum í megindráttum sammála í þessum efnum.

Annað sem ég vil nefna, talandi um kosti og galla, og af því hv. þingmanni er mjög hugleikið vaxtastig í landinu og hefur margoft gagnrýnt og haldið uppi gagnrýni á vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, að þegar þær ákvarðanir eru teknar þá byggja þær m.a. á mati á verðbólguvæntingum og verðbólgu sem er mæld út frá vísitölu neysluverðs. Það er kannski önnur hlið en ég kom inn á áðan varðandi það hvernig við metum reiknuðu húsaleiguna, lið 042 í þessum vöruflokkum. Við þurfum að skoða og tryggja að við séum ekki að taka slíkar ákvarðanir um vaxtastig, metið út frá verðbólgumælingum vísitölu neysluverðs, og tökum svo upp samræmda neysluvísitölu í útreikninga á verðtryggðum lánum.

Það eru svona þættir sem við flutningsmenn tillögunnar metum sem svo að mjög mikilvægt sé að fara í gegnum og fá heildaryfirlit yfir. Þess vegna leggjum við þetta upp með þessum hætti og vonandi náum við til lands með þessi mál og náum samræmi í vísitölum. Samræmi í öllum mælikvörðum hlýtur að skipta máli.

Ég er svo sem ekki með neina hreina spurningu til hv. þingmanns en vil þó árétta að stráið okkar í stjórnarsáttmálanum er nú ekki styttra en svo að bæði er þar kveðið á um verðtryggingu og samræmda neysluvísitölu.