148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni frétt sem birtist á vef Ríkisútvarpsins nú á dögunum um reynsluna af nýju greiðsluþátttökukerfi fyrir einstaklinga í heilbrigðisþjónustu, og af þeim breytingum sem tóku gildi í maí í fyrra.

Breytingunum var ætlað að lækka kostnað þeirra sem eru langveikir og er mikilvægt að gera það. Hins vegar ákvað ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar að leggja það til að lægri kostnaður langveikra dreifðist á aðra sjúklinga sem ekki eru eins veikir, þannig að hinir sem verða veikir, þar á meðal aldraðir og öryrkjar, greiði meira.

Á vef ASÍ eru upplýsingar frá því í fyrra um breytinguna. Þar kemur fram að tíminn hjá háls-, nef- og eyrnalækni hækkaði um 50% fyrir aldraða og öryrkja, tíminn hjá kvensjúkdómalækni um 56%, hjá hjartalækni um 68% og tíminn hjá geðlækni hækkaði um 60% fyrir aldraða og öryrkja, eða úr 4.102 kr. í 10.270 kr.

Í umræðum í nefndaráliti velferðarnefndar frá afgreiðslu málsins árið 2016 kemur fram að heilbrigðisráðherra, sem þá var Kristján Þór Júlíusson, núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefði gefið nefndinni það loforð að greiðsluþakið yrði lækkað í 33.000 kr. fyrir aldraða og öryrkja og börn, en yrði 50.000 kr. fyrir aðra.

Það loforð var svikið, þakið er enn allt of hátt eða 70.000 kr. fyrir almenna sjúklinga en 46.000 kr. fyrir börn, öryrkja og ellilífeyrisþega. Við í Samfylkingunni viljum að heilbrigðisþjónustan verði ókeypis og að tekin verði strax ákveðin skref í þá átt. Ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar vildi að lægri kostnaður á langveika yrði borinn af öðrum sjúklingum og öldruðum og öryrkjum. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar vildi ekki breyta því. Og nú er spurningin hvort ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vilji áfram seilast ofan í vasa aldraðra og öryrkja til að lækka kostnað í heilbrigðisþjónustu fyrir langveika.