148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. 12. febrúar sl. fór sá sem hér stendur í ferð til Norðvesturkjördæmis í kjördæmaviku. Fyrsti viðkomustaðurinn var Kvíabryggja. Þar hitti ég fanga og fangaverði og ræddi við þau um málefni fanga þar á bæ. Eitt af því sem var hvað mest kvartað undan var skortur á geðheilbrigðisþjónustu. Það er ekki nýtt vandamál, því miður, það er gamalt vandamál og hefur lengi verið bent á það.

Þetta er mjög alvarlegt vandamál í fangelsunum sem og víðar í samfélaginu. En ég myndi halda að það væri einmitt í fangelsum sem við myndum vilja hafa geðheilbrigðisþjónustu í hvað bestu lagi.

13. febrúar, daginn eftir, kom frétt í Fréttablaðinu um að fangi á Kvíabryggju hefði svipt sig lífi. Það er slík staðfesting á áhyggjum sem maður vill helst ekki lesa um. Það er fyrir mér persónulega mikil áminning. Og mér finnst það vera áminning til okkar allra um að við getum ekki farið með þennan málaflokk eins og einhverja afgangsstærð. Fangelsin eru hluti af okkar mannlega samfélagi. Okkur ber skylda til að tryggja að fólk sem þar er njóti réttinda og hafi aðgang að lágmarksheilbrigðisþjónustu, þar á meðal geðheilbrigðisþjónustu.

Látum þetta vera okkur til áminningar. Látum þetta vera okkur hvatning til að standa vel að þessum málum og fjármagna þennan málaflokk almennilega því að við viljum ekki dæma fólk til dauða hér á Íslandi, er það?