148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Óhætt mun að segja að frétt um að neytt hafi verið forkaupsréttar í 13% hlut ríkisins í Arion banka, hafi komið landsmönnum í opna skjöldu. Í framhaldinu hafa menn verið upplýstir um það álit að sá gerningur byggist á fortakslausum rétti, byggðum á samningi. Sömuleiðis mælir Bankasýslan með þessum viðskiptum jafnvel þótt, eftir því sem næst verður komist, ekki hafi sérstaklega verið tekið tillit til verðmætra eigna á borð við greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor, heldur stuðst við aðrar aðferðir.

Þannig stendur á, herra forseti, að hér ræðir um stærsta banka landsins sem talinn er kerfislega mikilvægur, eins og það heitir, en um eigendur er ekki fyllilega vitað. Þeir eru á hátíðarstundum nefndir vogunarsjóðir en í virðulegum erlendum fjölmiðlum er gjarnan notað orðið hrægammar um þessa aðila.

Við erum sem sagt í þeirri stöðu að veigamikill hluti fjármálakerfis okkar, bankakerfis okkar er í höndum aðila sem við vitum í fyrsta lagi ekki hverjir eru, og í öðru lagi má gera ráð fyrir að þeir hafi skammtímasjónarmið að leiðarljósi. Ég legg áherslu á að í þeim störfum sem fram undan eru á Alþingi í þessu máli geri menn sér glögga grein fyrir því hverjir hagsmunir ríkissjóðs eru samkvæmt þeim skjölum og gögnum sem liggja fyrir í þessu máli. Og sömuleiðis með hvaða hætti kjörnir fulltrúar geti sem best gætt hagsmuna ríkissjóðs og almennings í þessu þýðingarmikla máli.