148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp því að enn hafa ekki fengist viðunandi svör. Er það rétt að kröfuhafarnir hafi aldrei eignast kauprétt í Arion banka? Er það rétt að kröfuhafar hafi ekki staðið við sinn hluta samningsins sem snýr að greiðslum fyrir bankann? Er það rétt að einn fulltrúi Kaupþings við gerð hluthafasamningsins 2009 hafi síðan verið settur sem fulltrúi til að gæta hagsmuna ríkisins í málinu? Eða með öðrum orðum verið settur hinum megin við borðið endanlega. Þar sem við erum nú að vinna eftir ferli síðan 2015 um afnám hafta þá var núverandi hæstv. fjármálaráðherra einnig fjármálaráðherra. Ferlið var opið sem og aðferðafræðin og þess vegna á samningurinn að vera opinber. Er það rétt að í hluthafasamningnum frá 2009 hafi kaupverðinu verið haldið leyndu þegar hann var birtur opinberlega með því að afmá ákvæði sem kveða á um það í samningnum? Það á reyndar við um fleiri ákvæði. Þetta minnir óþægilega á leyndarhjúpinn sem var reynt að halda yfir fleiri samningum sem gerðir voru af sömu ríkisstjórn árið 2009. Allt til að friðþægja kröfuhafa.

Verð kaupréttarins virðist samkvæmt orðum hæstv. forsætisráðherra á Alþingi tiltekið í hluthafasamningnum, sem reyndar stangast á við orð forsætisráðherra í viðtali við RÚV í síðustu viku, en sé það svo hlýtur að vera eðlileg krafa að hafa allt uppi á borðum.

Hverjar verða afleiðingarnar? Með þessum gjörningi er verið að festa vogunarsjóði enn fastar í sessi í íslensku fjármálakerfi með blessun Fjármálaeftirlitsins. Önnur lönd hafa valið að fara ekki þessa leið. Þau hafa staðið með almenningi í landinu. Það er komin fullkomin ástæða til þess að hefja nú þegar rannsókn á seinni einkavæðingu bankanna.