148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða hér mál er tengjast fiskeldi. Þannig háttar til að á vef sjávarútvegsráðuneytisins er nú að finna drög að frumvarpi um þau mál sem eru vissulega bara til kynningar og eiga eftir að fara til þinglegrar meðferðar eftir umsagnir.

Það vakti athygli mína að í þeim drögum er lagt til að fiskeldisfyrirtæki þurfi aðeins að skrá starfsemi sína hjá Umhverfisstofnun en ekki að fá starfsleyfi þaðan. En vissulega er gert ráð fyrir rekstrarleyfi Matvælastofnunar. Það er margt gott að finna í þessu frumvarpi og nauðsynlegt að skýra lagaumhverfið, en ég verð að játa ég varð pínulítið hissa að sjá þetta þarna því að heimildin fyrir því að gera þetta svona kemur úr breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem samþykkt voru á síðasta þingi.

Þá var gagnrýnt töluvert af náttúruverndarsamtökum að þetta yrði gert með þessum hætti, og einnig af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Umhverfis- og samgöngunefnd skilaði samhljóða nefndaráliti um þetta mál þá. Þar segir, með leyfi forseta, að ákveðin starfsemi þurfi aðeins að skrá starfsemi sína hjá Umhverfisstofnun en ekki lengur að fá starfsleyfi:

„Nefndin leggur þann skilning til grundvallar að víðtækt samráð skuli fara fram við hlutaðeigandi aðila og öll stjónarmið verði virt og metin áður en ákvörðun um beitingu heimildarinnar fyrir tiltekna atvinnustarfsemi verði tekin. Þess verði gætt að undanþáguheimild þessi verði einkum nýtt fyrir smærri tegundir starfsemi sem ljóst sé að ekki stafi hætta af með tilliti til umhverfismengunar eða af öðrum völdum.“

Það var skýr vilji löggjafans í fyrra, samkomulag náðist um það í umhverfis- og samgöngunefnd þá. Ég treysti því að þessi skýri vilji löggjafans fari inn í þau frumvarpsdrög sem þar eru nú til kynningar.

Ég vil hvetja ríkisstjórnina til að horfa í stærra samhengi á þetta mál sem snýr að fiskeldi, það er ekki bara atvinnumál, ekki bara byggðamál eða bara umhverfismál, eða hvað við tínum til, þetta er það allt. Ég hvet ríkisstjórnina til að taka þetta til gaumgæfilegrar athugunar á sínu borði.