148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Síðustu daga hafa sjónir manna beinst að stöðu innflytjenda í íslensku skólakerfi, bæði í framhaldi af skýrslu í norrænu ráðherranefndarinnar um menntamál og nýútkominni greiningu Menntamálastofnunar á stöðu grunnskólanemenda með íslensku sem annað tungumál.

Innflytjendum hefur fjölgað mjög hratt í leikskólum og grunnskólum á síðustu árum og fjölgar mjög hratt þessa dagana. Samkvæmt vef Hagstofu Íslands voru börn með erlent móðurmál 2.410 í leikskólum árið 2016 og 4.148 í grunnskólum. Við þurfum á innflytjendum að halda. Atvinnulífið treystir nú sem aldrei fyrr á innflutt vinnuafl. Hver er ábyrgð atvinnulífsins? Hvernig ætlar það að koma að og skapa umhverfi fyrir íslenskunám foreldra þessara barna?

Það er alveg ljóst að það þarf umbætur í þessum málaflokki. Við höfum víða sett okkur góð markmið í lögum og stefnumótun. Fjöldi kennara um land allt er að gera frábæra hluti með íslensku sem annað tungumál, en heildarsýn og innleiðingu á stefnu er ábótavant.

Læsisverkefni, sem nú er víða unnið markvisst að, styðja mjög vel við þennan hóp nemenda, en það þarf meira til. Það þarf betri verkfæri, til kennara og skóla.

Í skýrslu Menntamálastofnunar er bent á að vinna þarf á mörgum sviðum. Vinna þarf með námskrá, námsefni, matstæki, móttökuúrræði, móðurmál, kennsluráðgjöf, rannsóknir, kennaranám og starfsþróun.

Mín skoðun er sú að allt þetta skipti miklu máli og að fyrsta skrefið sé að koma á miðlægu teymi til að vinna í þessum málaflokki, til að styðja við kennara, til að leiða umbætur á öllum þessum sviðum og tryggja samstarf allra skólastiga, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og fullorðinsfræðslu. Þar þurfa ríki, sveitarfélög og atvinnulíf að vinna saman.