148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Nú eru 14 mánuðir frá því að króna á móti krónu skerðingin var afnumin af ellilífeyrisþegum. Það eru 14 mánuðir sem öryrkjar hafa þurft að sitja uppi með krónu á móti krónu skerðingu. Hún er ekkert annað en hreint og klárt mannréttindabrot, fjárhagslegt ofbeldi. Við erum búin að samþykkja samning Sameinuðu þjóðanna. Er það fyrsta skilyrðið sem við ætlum að setja, að halda inni krónu á móti krónu skerðingu? Allir flokkar lofuðu að afnema þetta. Hvar eru loforðin?

Það er með ólíkindum hvernig hækkanir hafa dunið á öryrkjum undanfarið. Lyfjakostnaður, alls konar hækkanir skella á þeim. En öryrkjar og eldri borgarar fá ekki rétta launahækkun. Ekki samkvæmt launavísitölu. Nei, það er tekið sem neysluvísitala eða þaðan af verra. Þar munar um helming. Það var 4,7%, átti að vera 7,4%. Eða 47% ef rétt væri.

Síðan er annað í þessu og það eru tekjutengingar. Tekjutengingar við maka eru að aukast. Gerið þið ykkur grein fyrir því hvað öryrkjar þurfa að borga fyrir að vera í hjónabandi? Öryrki í hjónabandi þarf að borga milljón á ári. Hvers kyns virðing er það við hjónabandið? Mynduð þið sætta ykkur við það að við ættum að borga 2–3 milljónir, við þingmenn, fyrir að fá að vera í hjónabandi? Það er kominn tími til að við endurskoðum svona hluti og það er löngu tímabært að þessi illræmda krónu á móti krónu skerðing hverfi. Það hafa allir lofað því. Ég spyr alla flokka hér inni: Ætlið þið að standa við þetta? Eða voru þetta allt innantóm loforð? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)