148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Hv. formaður atvinnuveganefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, talaði um vanda lítilla útgerða. Ég er sammála henni. Við þurfum að skoða sérstaklega vanda lítilla útgerða og líka þeirra vinnslna sem eru kvótalausar, það er vissulega ákveðinn vandi sem þær standa frammi fyrir. Ég vara við því, og ég gerði það líka á fundi atvinnuveganefndar í gær, að bráðavandi tiltekinna lítilla fyrirtækja verði hagnýttur til að festa í sessi óréttlæti þegar kemur að því að greiða sanngjarnt gjald fyrir auðlindina. Ég vara við því að þessi vandi verði til þess að festa í sessi óréttlæti þegar kemur að þessu gjaldi, eðlilegu sanngjörnu gjaldi fyrir aðgang að auðlindinni.

Af hverju segi ég þetta? Jú, við verðum öll að vera á varðbergi. Það er einfaldlega þannig. Í ríkisstjórn með hv. þingmanni Vinstri grænna eru þingmenn og ráðherrar frá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Þetta eru þeir aðilar sem hafa móast við í áraraðir, bæði við að koma ákvæði í stjórnarskrána um auðlindaákvæði og að koma á þessu sanngjarna gjaldi fyrir aðgang að auðlindinni. Þetta vildi ég sagt hafa. Ég vara við því að nýta sér þennan bráðavanda.

Ég vil hins vegar taka sérstaklega undir það að verkleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar er orðið ótrúlegt. Við erum ekki endilega að óska eftir þessum leiðindamálum, heldur þeim góðu málum sem ríkisstjórnin hefur boðað. Það eru innviðamálin. Hvar eru þau? Hér á eftir er einmitt umræða um löggæsluna. Hvar er áætlunin um uppbyggingu á löggæslu? Hvar er áætlunin um samgöngumálin?

Það var síðast í gær sem ég benti á að hæstv. samgönguráðherra ætlar ekki einu sinni að birta samgönguáætlun, sem hann ætti að vera stoltur af, ætlar ekki að birta samgönguáætlun fyrr en eftir dúk og disk með haustinu. Ég veit ekki af hverju. Síðan kemur hann í útvarpinu í morgun og predikar það (Forseti hringir.) og boðar í krafti umferðaröryggis að umferðarsektir verði stórhækkaðar. Í staðinn fyrir að reyna að nálgast það mál með aðeins meiri hvata, eins og Svíar hafa t.d. gert, hæstv. forseti, með miklum (Forseti hringir.) og góðum árangri, að nálgast þetta frekar jákvætt, er talað um að stórhækka sektir; frekar en koma upp ákveðnu hvatakerfi til ökumanna um að hegða sér betur í umferðinni.