148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[15:39]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar í byrjun að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að taka þátt í umræðu um málefni lögreglunnar á landinu. Það var oft þörf á því að ræða þessi mál, en nú er nauðsyn vegna þess að málefni lögreglunnar á Íslandi í dag eru í algjörum ólestri. Það er alltaf verið að reyna að bútasauma til þess að laga þetta ástand. Fyrir þremur, fjórum árum voru settar 500 milljónir inn í fjárlög sem áttu að bæta við 54 nýjum störfum í lögregluna. Hver er raunin? Lögreglumönnum hefur fækkað á árunum 2007–2016 úr 712 á öllu landinu niður í 629.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir þetta ár bætti ríkisstjórnin inn á milli umræðna 180 millj. kr. í löggæsluna. Ágætt. Hvað fáum við fyrir 180 milljónir? Við fáum ekki tvær tveggja manna áhafnir á lögreglubíl í Reykjavík sólarhringinn út. Það er eitt sem menn virðast ekki átta sig á, það kostar dálítið mikið að hafa öfluga löggæslu, m.a. vegna þess að í hverju sólarhringsstöðugildi eða hverri sólarhringsstöðu lögreglumanns eru fimm og hálft stöðugildi. Þetta vita allir sem hafa komið að því að skipuleggja vaktir eða reikna þær út. Þetta er það sem þarf.

Í Reykjavík einni núna vantar 88 lögreglumenn upp á að fjöldi þeirra sé í samræmi við mannfjöldaaukningu frá aldamótum. Þetta er fyrir utan ferðamennina. Hvað þýðir það að bæta t.d. við 88 mönnum í Reykjavík? Það þýðir að við fáum extra fjóra menn á vakt af sömu ástæðu og ég rakti áðan. Það þarf 88 störf til þess.

Samdrátturinn birtist alls staðar. Hann birtist í því að það er minni akstur lögreglubíla sem munar um 250 þús. kílómetrum á landsvísu síðustu þrjú ár. Hvað þýðir það? Það þýðir að frumkvæðisvinna og eftirlit borgurunum til heilla dregst saman. Viku eftir viku heyrum við um aukinn akstur, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, þar sem menn eru undir áhrifum fíkniefna og tekur gríðarlegan toll af lögreglustarfinu. Við upplifum líka að þar sem vaktirnar hafa orðið fámennari núna en þær hafa verið þá fer lögreglan mannfærri á vettvang í hverju tilviki. Hvað þýðir það? Það þýðir að lögreglumenn eru sífellt að lenda í átökum, við erum að missa menn í meiðsli, fyrir utan að það er ekki gæfulegt fyrir lögreglumenn að þurfa að ganga að því nánast sem gefnu að lenda í átökum við borgara sem þeir þurfa að hafa afskipti af.

Það er líka talandi dæmi um það hvernig hefur verið kastað til höndum og menn hafa ekki hugsað hlutina til enda að það er nýmæli í menntun lögreglumanna. Það er fagnaðarefni að hún skuli vera komin á háskólastig, en þetta var gert með engum fyrirvara. Lögregluskóli Íslands var lagður niður með engum fyrirvara. Við misstum tvo útskriftarárganga út vegna þessa máls. Við fáum væntanlega 40 manns til starfa eftir þetta skólatímabil, 60 á næsta ári. Þetta fólk hefur litla sem enga starfsreynslu eða starfsþjálfun fengið. Það er alltaf verið að hlaupa til á síðustu stundu og kasta til höndum.

Við getum farið vítt um landið. Alls staðar nánast er fækkun. Á Vestfjörðum, Norðurlandi eystra, Suðurnesjum, og sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er grafalvarlegt.

Þessu til viðbótar er rétt að benda á að á sama tíma er tækjabúnaður að ganga úr sér. Bifreiðarnar eru að eldast. Það vantar fleiri tölvur til þess að bregðast við efnahagsglæpum o.s.frv. Ég fagna frumkvæði ráðherra í því að koma inn með nýtt fé sem er reyndar ekki á fjárlögum, þetta er gúmmítékki, til þess að efla rannsóknir á kynferðisbrotum. Fagnaðarefni, löngu tímabært.

En allt er þetta gert í flýti. Það er engin stefna. Það er engin heildarstefna. Í Reykjavík núna vantar líklega einn milljarð á ári bara til þess að hægt sé að ráða þessa 88 menn sem ég var að tala um áðan. Það er fyrir utan að bæta tækjabúnað o.s.frv.

Nú þurfum við þingmenn að heyra frá hæstv. ráðherra hvað hún hyggst gera, hvað hún hyggst leggja fyrir þingið til þess að efla löggæslu í landinu. Ég efast ekki um að í þessum sal eru fjölmargir sem eru til í að leggjast á árar með hæstv. ráðherra, en við verðum að fá að vita hvað ríkisstjórnin vill gera í þessum málum.