148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[15:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er mikilvæg umræða um löggæslumál. Ég er sammála því að efla þurfi hina almennu löggæslu í landinu og auðvitað skipta fjárframlög þar gríðarlega miklu máli. Ég held að við munum verða í þeirri stöðu á næstu árum að skoða þau mál.

Ég fagna því sérstaklega sem hæstv. dómsmálaráðherra sagði áðan að verið sé að vinna að greiningu á því af hverju fjölgun lögreglumanna hafi ekki verið meiri en raun ber vitni á undanförnum árum. Við hljótum að þurfa að kafa ofan í það.

Það er fleira sem skiptir máli en bara krónutalan sem fer í löggæslumál. Mig langar þar að nefna inntak starfsins, þ.e. hvernig lögreglan vinnur, það skiptir einnig gríðarlega miklu máli, og einnig menntun lögreglumanna. Auðvitað er það alltaf í tengslum við fjárframlögin í málaflokkinn en það skiptir samt líka máli hvernig lögreglan vinnur. Og það er nú gaman að segja frá því að akkúrat meðan við eigum í þessari umræðu hér stendur yfir ráðstefna á Akureyri sem ber yfirskriftina „Löggæslan og samfélagið – löggæsla í dreifbýli“. Þar er verið að flytja rosalega mikið af spennandi erindum um þátt lögreglunnar í nútímasamfélagi.

Mig langar að fagna því sérstaklega að settir hafi verið peningar í aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota, vegna þess að forvarnir, rannsóknir og málsmeðferð kynferðisbrota hjá lögreglunni eru partur af hinni almennu löggæslu enda eru konur iðulega brotaþolar, og þær eru um helmingur almennings í þessu landi. Ég er hrædd um að hér áður fyrr hafi verið litið svolítið fram hjá því þegar við ræðum um löggæslumálin almennt að kyn skiptir þar máli. Það þarf að horfa sérstaklega til þess hver staða kvenna er í samfélaginu. Þess vegna finnst mér þessi áhersla skipta miklu máli og það á að nefna hana þegar við ræðum um hina almennu löggæslu.