148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[15:57]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni frumkvæðið að þessari umræðu, sem er vissulega brýn. Hæstv. ráðherra fullyrðir að lögreglumönnum hafi fjölgað við sameiningu lögregluembætta, en það virðist ekki vera raunin því að almennum lögreglumönnum hefur fækkað, alla vega víðast hvar um landið.

Með sameiningu lögregluembætta í landinu þann 1. janúar 2015 átti að nást hagræðing sem hefði átt að leiða til eflingar á sýnilegri löggæslu, en sú hefur ekki orðið raunin heldur hefur almennum lögreglumönnum fækkað.

Í skýrslu starfshóps dómsmálaráðherra um sameiningu frá árinu 2009 segir, með leyfi forseta:

„Með þeim breytingum á skipulagi lögreglunnar […] eru skapaðar forsendur fyrir verulegri hagræðingu í löggæslunni. Möguleikarnir liggja ekki síst í minni yfirbyggingu …“

Síðar er talað um hvernig sú hagræðing gæti skilað sér. Er þá sérstaklega bent á að með minni yfirbyggingu, samnýtingu húsnæðis, með einföldu stjórnskipulagi skapist möguleikar á að gera lögregluna sýnilegri og starfsemina sveigjanlegri.

Fækkun í lögreglunni frá sama tíma er því alls ekki í samræmi við markmiðin sem sett voru með sameiningu og heldur ekki í takt við fjölgun íbúa eða þeirrar miklu fjölgunar ferðamanna á sama tíma. Stórauka þyrfti löggæslu í umferðinni. Einnig þarf að auka stuðning lögreglunnar við aðra hópa í landinu, eins og fíkniefnaneytendur og fleiri.

Það er því mjög brýnt að fara rækilega yfir þessi mál. Þá væri farsælast að endurskoða og samþykkja löggæsluáætlunina og í framhaldinu að virkja hana með fjármagni til framkvæmda.