148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[15:59]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þessa umræðu um löggæsluna í landinu sem er löngu tímabær að mínu mati. Ef ræða á um fjölda lögreglumanna og tala um eflingu löggæslunnar er kannski ágætt að fara aðeins aftur í tímann og ræða áætlanir um fjölgun lögreglumanna í sögulegu samhengi því að fyrir því hefur oft verið talað áður.

Hvaða ár eigum við að byrja þessa eymdarsögu? Við þurfum ekki að fara aftar en til ársins 2014. Það er kannski ágætt að taka það ár sem dæmi því að þá var ráðuneyti dómsmála í höndum sama flokks og nú fer með stjórn þessa málaflokks. Ákall um fjölgun lögreglumanna er ekki nýtt af nálinni. Þannig var það líka þarna, sex árum eftir hrun. Þá skrifar einn stjórnarþingmanna grein í Morgunblaðið, 23. janúar 2014, með leyfi forseta:

„Það er afar ánægjulegt … að tekist hafi að ganga strax í það brýna verkefni að efla löggæsluna í landinu. Núverandi ríkisstjórn lagði áherslu á það í stjórnarsáttmálanum að forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar. Ákveðið var að verja 500 milljónum í eflingu lögreglunnar …“

Og síðar, með leyfi forseta:

„Lögreglumönnum mun fjölga um 44 til viðbótar við þá 10 lögreglumenn sem gert er ráð fyrir í fjárlögum þessa árs.“

Og loks:

„Ljóst er að þetta er aðeins fyrsta skrefið í eflingu lögreglunnar.“

Hvar eru þessir menn í dag? Hvað varð um þennan hálfa milljarð? Árið 2011 voru lögreglumenn samkvæmt tölum frá embætti ríkislögreglustjóra 652. Næsta ár 656. Þar á eftir 654. Síðan 653 og aftur 653 og árið 2016 voru þeir 646 samkvæmt tölum frá ríkislögreglustjóra. Það hreyfist ekki neitt. Þeim fjölgaði ekkert og hafði fækkað tveimur árum síðar, tveimur árum eftir að þessi grein var skrifuð, um sjö samkvæmt tölum frá ríkislögreglustjóra.

Það er sama niðurstaða þó að teknir séu inn í reikninginn afleysingamenn og héraðslögreglumenn. Á sama árabili hefur heildarfjöldinn að þeim meðtöldum fækkað um 15. Af hverju er ég að rifja þetta upp hérna? Vegna þess að við erum að kalla á raunverulegar aðgerðir (Forseti hringir.) til að ráðast í fjölgun lögreglumanna, til að efla almenna og sýnilega löggæslu sem lögreglan sjálf hefur kallað eftir árum saman fyrir daufum eyrum.