148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[16:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kallaði eftir sjónarmiðum þingsins í garð löggæslunnar. Þau eru einföld og skilaboðin eru mjög skýr: Eflum löggæsluna, styðjum við lögregluna. Það er mjög einfalt.

Árið 2012 sat ég í þverpólitískri nefnd sem skilaði mjög skýrum tillögum til þáverandi innanríkisráðherra. Þar kom fram skýrsla til þingsins sama ár um að fjölga þyrfti lögreglumönnum um 236. Þetta var skýrsla allra flokka, unnin fyrir innanríkisráðherra sem skilaði síðan skýrslu til þingsins. Skilaboð okkar í Viðreisn eru mjög skýr til dómsmálaráðherra: Eflum löggæsluna. Þetta er ríkisstjórn sem mynduð var um innviðauppbyggingu. Lögreglan er mikilvægur hluti af innviðum þjóðarinnar og landsins þannig að þetta eru mjög skýr skilaboð.

Mig langar til þess að koma inn á annað af því að efla þarf eftirlit og löggæslu í ýmsum brotaflokkum. Það varðar mál sem tengist þjóðaröryggi og tölvuöryggi. Í lok síðasta árs hrundi bókstaflega heilt veffyrirtæki, vefþjónustuaðili, 1984, sem hýsir m.a. síður í tengslum við stjórnmálaflokka og ýmsa aðra. Enginn sagðist hafa séð svona lagað áður.

Það er alveg ljóst og mér skilst á miklum sérfræðingum, líka frá Danmörku og fleiri stöðum, að svona geti enginn gert nema öflugar þjóðir eða öflugir aðilar standi að baki svona árás á vefþjónustufyrirtæki. Það er fyllsta ástæða til þess að fara mjög vel ofan í saumana á þessu máli því að það varðar þjóðaröryggi.

Þess vegna spyr ég hv. ráðherra: Hefur einhver rannsókn átt sér stað á því kerfishruni sem varð hjá fyrirtækinu 1984? Ef ekki, telur ráðherra þá ekki fyllstu ástæðu til að efla löggæslu og tölvueftirlit með þjóðaröryggishagsmuni í huga?