148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[16:09]
Horfa

Adda María Jóhannsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir að hefja máls á og vekja athygli á stöðu löggæslumála og tek undir með hv. þingmönnum öðrum sem hér hafa lýst yfir áhyggjum sínum.

Á undanförnum árum hefur fækkað í lögreglunni þrátt fyrir fjölgun landsmanna, ferðamanna og vaxandi umferð. Tegundir afbrota hafa einnig breyst og þau oft skipulagðari og flóknari en áður. Álagið í lögregluliðinu er gífurlegt og ljóst að ekki er mögulegt að hafa undan þannig að forgangsraða þarf verkefnum og margt bíður. Það kæmi ekki á óvart að þau langtímaveikindi sem hæstv. dómsmálaráðherra nefndi hér áðan séu að hluta til vegna þessa álags.

Ef við skoðum höfuðborgarsvæðið er áætlað að þar vanti um 100 lögregluþjóna ef vel á að vera. Á höfuðborgarsvæðinu eru einungis fjórar lögreglustöðvar, á Hverfisgötu, í Hafnarfirði, í Kópavogi, sem sinnir einnig Breiðholti, þ.e. um 60.000 manns, og í Grafarholti, sem sinnir gífurlega stóru svæði, Grafarvogi, Árbæ, Norðlingaholti, Grafarholti, Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjós. Gífurlega víðfeðmt svæði.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið eru 25 lögreglumenn á vakt á svæðinu á hverjum tíma í senn, 25 á öllu höfuðborgarsvæðinu. Það samsvarar einum lögreglumanni á hverja átta þúsund íbúa, sem er um tvöfaldur íbúafjöldi Seltjarnarness og nálægt íbúafjölda Mosfellsbæjar.

Miklar innbrotahrynur hafa verið í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur undanfarna mánuði, svo miklar að bæjarráð Kópavogs hefur óskað sérstaklega eftir viðræðum við dómsmálaráðuneytið um stöðu löggæslumála í bænum.

Forseti. Löggæslan er ein af grunnstoðum samfélagsins og mikilvægt að hún sé öflug, geti sinnt sínum verkefnum og sé sýnileg.

Ég verð að segja að ég lýsi vonbrigðum með þau svör sem hæstv. dómsmálaráðherra gaf hér áðan. Ég velti fyrir mér: Er sem sagt engin áætlun? Herra forseti, er ekkert plan?