148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[16:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. frummælanda fyrir að vekja athygli á málefnum lögreglunnar. Ætli það sé ekki eitt af því sem ég hef mest rætt í þessum ræðustól fyrir utan fjárlög, þ.e. ástand lögreglunnar. Ég tek alveg undir að það er enn þá ekki nægjanlega gott. Við miðum gjarnan við málin eins og þau voru fyrir hrun og þyrftum að fara mun lengra aftur. Ég hef lagt fram margar fyrirspurnir um kjör lögreglumanna, aðbúnað og ýmislegt fleira. Og ég tel að við höfum gengið of nærri löggæslunni á sínum tíma eftir hrunið.

Við þekkjum að staðan í hinum dreifðu byggðum er afar mismunandi. Lögreglumenn eru stundum einir á vakt, yfirferðin er gífurleg. Menn standa vaktir og bakvaktir. Dagarnir eru langir. Hér á stórhöfuðborgarsvæðinu eru menn að fást við erfið mál eins og ofbeldi og þess háttar. Vandamál eru svo sem ekki eingöngu launamálin.

En síðan má líka velta fyrir sér, í ljósi þess sem hér kom fram hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, kynjaskiptingu innan lögreglunnar. Þetta er bara ekki það sem unga fólkið lætur bjóða sér, hvorki launakjörin né svona langar vaktir til þess að hafa það sæmilegt. Við þurfum að leggja eitthvað á okkur til að reyna að breyta því.

Við höfum rætt þessi mál mikið. Það er þrekvirki sem hefur verið unnið. Það hefur reynt mikið á stoðir lögreglunnar. Ég tek undir það að langtímaveikindi hljóta að endurspegla að einhverju leyti hvernig mannfæðin hefur verið og álagið aukist. Þetta er ein af okkar grunnstoðum eins og hér hefur komið fram. Við þurfum að gera betur en við höfum gert. Við erum að útskrifa fleiri. Ég er ánægð með að námið hafi farið yfir á háskólastig þótt komið hafi fram sú gagnrýni að námið hefði átt að halda áfram að einhverju leyti til einhverra ára til viðbótar (Forseti hringir.) eins og það var. Ég held að það hafi ekki átt að vera þannig og við séum að gera rétt með því að gera þetta svona.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í lokin um það sem kom fram í skýrslunni sem hér hefur verið vitnað til, um rafræna skráningu á viðbragðshraða lögreglunnar í útköllum og tímalengd útkalla miðað við lágmarksviðmið sem lögreglunni eru ætluð. Mig langar að fá að vita hvort það hefur verið gert.