148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[16:20]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir að efna til þessarar umræðu. Traust til lögreglunnar er ákaflega mikilvægt í samfélagi okkar og sem betur fer nýtur lögreglan á Íslandi trausts. Það er mikilvægur þáttur í starfi lögreglunnar að það þarf að gæta öryggis okkar borgaranna og stuðla að því að við getum átt gott samfélag í landinu. Miklar breytingar hafa orðið í íslensku samfélagi. Nægir að nefna, þótt ekki sé annað, tæknibreytingar sem orðið hafa í lífi okkar allra. Brotastarfsemi er með öðrum hætti en hún var fyrir nokkrum árum síðan. Miklu meiri þörf er á sérfræðivinnu. Það þarf að takast á við tölvuglæpi, skipulagða glæpastarfsemi. Við leggjum miklu meira upp úr því að kynferðisbrot og heimilisofbeldi sé tekið föstum tökum. Lögreglan þarf að vera í stakk búin til þess að gera allt það.

Lögreglan byggir á gömlum merg. Það er stofnun sem byggð hefur verið upp í tímans rás á ákveðnu kerfi, ákveðinni menningu og er ansi karllæg. En það breytir því ekki að við þurfum að sjá til þess að til sé nægt fé og nægur mannafli, næg sérþekking, sérmenntun, til þess að sinna öllum þessum verkefnum. Ég tek því undir það sem aðrir þingmenn hafa sagt hér: (Forseti hringir.) Við verðum að leggja talsvert á okkur til þess að sjá til þess að lögreglan njóti áfram (Forseti hringir.) þess trausts sem hún hefur og geti sinnt því hlutverki sem við ætlumst til af henni.