148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.

149. mál
[16:35]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll. Ég vil byrja á að þakka framsögumanni, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, fyrir framsöguna í þessu máli, og eins flutningsmanni, Unni Brá Konráðsdóttur, sem var varamaður minn þegar hún flutti tillöguna, þess vegna er ég ekki á henni. Mér þótti það aðeins miður, en svoleiðis eru reglurnar. En auðvitað styðjum við þetta mál öll heils hugar, þingmenn Suðurkjördæmis. Eins og fram kom er búið að flytja þetta mál nokkrum sinnum og vonandi fær það brautargengi.

Það styður þetta mál, sem fram kom í sérstökum umræðum í dagskrárliðnum á undan þegar verið var að ræða málefni lögreglunnar, að hæstv. dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen sagði að efla ætti landamæraeftirlit lögreglunnar. Það er ein af forsendum þess að þetta mál nái fram að ganga. Eins og fram kom í máli framsögumanns er þetta líka til þess gert að treysta enn frekar atvinnulíf á Hornafirði og nágrenni og stuðla að frekari uppbyggingu á vexti Vatnajökulsþjóðgarðs og ferðaþjónustunnar á Suður- og Suðausturlandi, sem er gríðarlega mikil. Í sveitarfélaginu Hornafirði eru nokkuð fleiri gistirými en allir íbúarnir. Ég hygg að það sé nú ekki þannig á mörgum stöðum.

Sá þáttur sem kemur fram er varðar almenningssamgöngur er mjög mikilvægur. Hornafjörður er langt úr leið, þangað er langt að fara, það þekkjum við þingmenn sem förum þangað nokkrum sinnum á ári. Þess vegna er afar mikilvægt að treysta og efla þar flugsamgöngur, þétta áætlunarflugið þannig að það nýtist almenningi og atvinnulífi betur og einnig íbúum um helgar.

Ég vil í því sambandi nefna að á síðustu mánuðum og kannski árum hefur til verið til umræðu skoska leiðin svokallaða, sem Austurbrú, landshlutasamtökin á Austurlandi, hefur staðið fyrir. Reyndar hafa fleiri landshlutasamtök komið inn í þá umræðu. Þar sem er verið að tala um afsláttarkjör sem Skotar hafa veitt fólki sem býr í norðlægum eyjum við Skotland. Þessi afsláttarkjör eru þannig að íbúar með lögheimili á viðkomandi stað fá sérstök afsláttarkjör til að geta flogið úr heimabyggð til höfuðborgarinnar til að nýta sér læknisþjónustu, til þess að vera í sambandi við fjölskyldu sína og til þess að geta sótt þá þjónustu sem er langt í burtu og kostar gríðarlega mikið að sækja. Ég veit að sú tillaga, þessi skoska leið eða sambærilegar leiðir til að tryggja ódýrari flugfargjöld fyrir fólk á landsbyggðinni, er gríðarlega mikilvæg. Ég finn það oft þegar ég kem á Hornafjörð hvað flugið er stór þáttur í lífinu þar og hvað það skiptir íbúana á Höfn og í sveitarfélögunum þar í kring miklu máli að það komist í lag. Uppi voru hugmyndir um að minnka jafnvel flugvöllinn á Höfn. Við vörum náttúrlega við því að slíkar hugmyndir nái fram að ganga. Það má alls ekki gerast.

Það þarf að efla flugvöllinn, eins og þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir. Það er kjörið tækifæri fyrir minni og meðalstórar flugvélar sem fljúga á milli landa í einkaerindum eða með farþega til þess að lenda þarna á þessum góða stað, eins og fram kom í máli framsögumanns. Ég legg þunga áherslu á það ásamt flutningsmönnum tillögunnar að hún nái núna í gegn og að þetta mál verði að veruleika, vonandi með næstu fjárlögum.