148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

150. mál
[16:47]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir gagnsæisbreytingu á Stjórnartíðindum og Lögbirtingablaði. Þar er breyting á 7. gr. sem er í heildina með nýju orðalagi með fyrirsögn eftirfarandi:

„Rafræn útgáfa Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað skulu gefin út og þeim dreift á rafrænan hátt.“

Þetta er mjög svipuð tillaga og áður og ekki er miklu breytt í greininni. En samt eru mikilvægir hlutir færðir aðeins til hvað varðar kostnað við aðgengi að þessum ritum.

„Við rafræna útgáfu skal tryggja öryggi og áreiðanleika birtra upplýsinga og að þær varðveitist á varanlegan hátt og að gagnasnið útgáfunnar sé opið og aðgengilegt.“ Það er viðbót hérna með gagnasniðið. „Rafrænni útgáfu Lögbirtingablaðs skal hagað þannig, eftir því sem tæknilega er unnt, að komið sé í veg fyrir úrvinnslu og samtengingu persónuupplýsinga sem birtar eru. Við rafræna útgáfu skal útgáfudagur tilgreindur.

Haga skal útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs þannig að vél- og hugbúnaður sem flestra nýtist. Skulu þeir sem þess óska geta keypt Stjórnartíðindi eða Lögbirtingablað í prentuðu formi í áskrift eða fengið einstök tölublöð send gegn greiðslu kostnaðar af prentun þeirra og sendingu.“

Þetta er svipað og var áður.

Hér er viðbót, að kostnaðurinn af rafrænni útgáfu er í raun tekinn út.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað skulu vera aðgengileg á tölvutækan hátt á opinni gagnagátt, t.d. opingogn.is.

Ráðherra mælir í reglugerð nánar fyrir um rafræna útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs, þar á meðal um gagnaöryggi, varðveislu gagna og persónuvernd.“

Það er sem sagt verið að gera að skyldu að Stjórnartíðindum og Lögbirtingablaði verði dreift á rafrænan hátt, að aðgengi að rafrænni útgáfu verði notendum að kostnaðarlausu og að allt sem birt er í þessum ritum skuli vera aðgengilegt á tölvutækan hátt á aðgengilegu og opnu gagnasniði á opinni gagnagátt.

Munurinn er að þarna er ekki pdf-skjal eða eitthvað svoleiðis sem er dálítið erfitt fyrir tölvur að lesa. Tillagan snýst um að tölvur geti lesið texta sem birtir eru í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum, það sé ekki bara fyrir mannsaugun. Það skiptir mjög miklu máli fyrir sjálfvirkar uppfærslur þegar einhverju hefur verið breytt. Þá getur tölvan vaktað það fyrir okkur. Þá sjáum við miklu betur þegar einstaka greinar breytast eða þegar viðbætur og tilkynningar koma, en með núverandi fyrirkomulagi.

Þetta er í rauninni ekkert svo flókin breyting, eða á ekki að vera það. Henni svipar til þingsályktunartillögu sem þegar hefur verið samþykkt varðandi birtingu laga, frumvarpa, þingsályktunartillagna og fyrirspurna á Alþingi, þannig að þetta klárar í rauninni það ferli. Síðan þegar búið er að birta lögin og samþykkja allt sem birtist í Stjórnartíðindum og Lögbirtingablaði er í rauninni sama aðgengi að því efni og að þeim skjölum sem við eigum að hafa á tölvutæku formi á Alþingi.

Ég vonast til þess að frumvarpið fái gott brautargengi í nefnd og að því fylgir ekki mikill kostnaður. Það er jú einhver kostnaður við að setja upp kerfið eða ferlið, en til lengri tíma litið er þetta tvímælalaust sparnaður þar sem hægt er að gera svo miklu meira með þessar upplýsingar þegar tölvurnar geta farið að púsla saman þessum textum og hjálpa okkur við að fylgjast með hvað er að gerast á vettvangi þessara rita.