148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

169. mál
[17:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar fyrir hönd varaþingmanns Vinstri grænna, Bjarna Jónssonar, sem kom hingað inn sem varaþingmaður eftir áramótin í minn stað vegna fjarveru minnar. Tillagan er um hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

Flutningsmaður tillögunnar er Bjarni Jónsson, varaþingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi.

Hún hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hlutast til um að gerð verði fjölþætt hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar á norðanverðu Snæfellsnesi, milli Búðardals og Stykkishólms, sem heilsársvegar. Athugunin taki til samfélagslegra og byggðarlegra áhrifa þess að efla þannig samgöngur á milli byggðarlaga á norðanverðu Snæfellsnesi, um Dali, í Reykhólasveit, sunnanverða Vestfirði og norður á Strandir. Sérstaklega verði litið til styrkingar svæðisins sem eins atvinnu- og þjónustusvæðis, uppbyggingar ferðaþjónustu og vegaöryggis. Ráðherra leggi niðurstöður hagkvæmnisathugunarinnar fyrir Alþingi ásamt kostnaðaráætlun vegna uppbyggingarinnar í síðasta lagi 15. september 2018.

Þingsályktunartillögunni fylgir greinargerð.

Rannsókn sem gerð var á slysatíðni á vegum á árunum 2007–2010 undir stjórn Þórodds Bjarnasonar leiddi í ljós að Skógarstrandarvegur var einn þeirra þriggja hættulegustu vegarkafla landsins. Ekki er ástæða til að ætla að þetta hafi breyst til bóta þar sem fréttir af umferðaróhöppum á þessum vegi eru tíðar enda ástand hans bágborið og ljóst að hann stendur engan veginn undir þeirri umferð sem þar er né því hlutverki sínu að mynda greið tengsl milli byggðra bóla þar sem hann liggur. Í þingsályktun nr. 65/145, um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018, eru ætlaðar 125 millj. kr. á yfirstandandi ári til endurbóta á Skógarstrandarvegi.

Í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2015–2026, sem lögð var fram á 145. löggjafarþingi en hlaut ekki samþykki, er framkvæmdaþörf við Skógarstrandarveg viðurkennd þar sem alls voru ætlaðir 2,2 milljarðar kr. til uppbyggingar vegarins á gildistíma áætlunarinnar. Viðhald og endurbætur á þessum vegi hafa nánast engar verið á undanförnum árum og áratugum og lítill gaumur verið gefinn að mikilvægi hans fyrir greið samskipti á milli byggðanna og eflingu ferðaþjónustu og viðskipta innan þessa svæðis. Allur vegurinn er á láglendi meðfram sjónum og enga fjallvegi yfir að fara sem teppast fyrstir vegna veðurs og snjóalaga. Það yrði því fyrirhafnarlítið að halda uppbyggðum Skógarstrandarvegi opnum allt árið um kring.

Brýnt er að ekki verði horfið frá áformum um að fjármagna uppbyggingu Skógarstrandarvegar svo hann verði ekki lengur slysagildra og fái gegnt samgönguhlutverki sínu. Sporin hræða þegar horft er til staðreynda undanfarinna ára hvað varðar eftirfylgni á samþykktum samgönguáætlunum. Með eflingu samgangna um norðanvert Snæfellsnes og innanverðan Breiðafjörð opnast nýir möguleikar til margvíslegs samstarfs og bættrar þjónustu, svo sem í heilbrigðis- og menntamálum. Eins og staðan er nú þurfa íbúar þessara byggðarlaga sem tengd verða saman með uppbyggðum heilsársvegi um Skógarströnd oftast að ferðast um langan veg til að komast á milli svæða, þótt vissulega sé hægt að komast um illfæran veginn hluta ársins.

Þessar byggðir eiga sumar hverjar í vök að verjast í atvinnu- og byggðarlegu tilliti. Þegar horft er til aukinnar ferðaþjónustu er svæðið auðugt af fjölbreyttri náttúru, sögu og menningarhefðum sem gætu staðið undir uppbyggingu ferðaþjónustunnar ef greiðar samgöngur væru fyrir hendi. Þessari þingsályktunartillögu er ætlað að stuðla að því að uppbygging þessa mikilvæga samgöngumannvirkis komist í kring eins fljótt og unnt er. Það gerist ekki síst með því að skoða gaumgæfilega hve mikla þýðingu slíkar samgöngubætur munu hafa og draga fram sterkari forsendur fyrir því að hraða uppbyggingu þessara vega.

Ég get tekið undir þetta sem framsögumaður að því máli sem ég mæli fyrir fyrir hönd Bjarna Jónssonar, varaþingmanns Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, að vissulega er þörf ekki bara gagnvart þessum vegarkafla heldur svo mörgum vegum í landinu sem ætti að vera búið að gera hagkvæmnisathugun á út frá svo mörgum öðrum sjónarmiðum en eingöngu fjölda bíla eða umferðarþunga á svæðinu, því að því miður eru allt of margir vegarkaflar sem við eigum eftir að ljúka í landinu. Og kallað hefur verið eftir því að fá samgönguáætlun fram sem fyrst.

Ég bind miklar vonir við að ný samgönguáætlun komi til með að endurspegla þá miklu uppsöfnuðu þörf sem er í uppbyggingu vega vítt og breitt um landið og líka í uppbyggingu og gerð jarðganga. Við getum bara ekki verið lengur á þeim stað að sum svæði á landinu séu langt á eftir í framkvæmdum og svo að segja mörgum áratugum á eftir í samgöngum milli atvinnusvæða og landsvæða þar sem fólk treystir á að geta komist öruggt ferða sinna og stór hluti geti verið í raun eitt atvinnusvæði og við búin að sameina innan stjórnsýslunnar. Heilbrigðisstofnanir hafa verið að stækka umdæmissvæði sín, lögreglan, sýslumenn, við þekkjum þetta allt. En þetta hefur verið eftirbátur og það endurspeglast í því að góðar samgöngur verða að vera innan landshlutans. Þar þarf virkilega að taka til hendinni.