148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

169. mál
[17:30]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu um hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar. Sá vegur er langur og erfiður frá sjónarmiði umferðaröryggis og tilheyrir frekar fortíðinni og dregur upp næsta rómantíska mynd af Land Roverum sem fóru um landið á hraða snigilsins og áttu aðeins erindi á vegunum yfir sumarmánuðina. En frá þeirri sýn.

Í umræðunni mætti líka leggja fram hugmynd um fleiri hringvegi en þjóðveg 1 á landinu. Við viljum dreifa auknum ferðamannastraumi um allt land, en hversu vel við útfærum þá hugmynd eru það alltaf samgöngumannvirkin sem verða aðalflöskuhálsinn í þeim markmiðum. Að fjölga skilgreindum hringvegum er ein hugmynd. Hringvegur 2 væri skilgreindur um Snæfellsnesið til dæmis og hringvegur 3 á Vestfjörðum. Þeir hringvegir yrðu svo tengdir hringvegi 1. Þarna yrði komið upp hringvegi sem yrði meginstoð þess landsvæðis og þyrfti að sinna í samræmi við það allan hringinn.

Á þeim svæðum eru byggðir sem sumar hverjar eiga í vök að verjast í atvinnu- og byggðalegu tilliti og með slíkum framkvæmdum yrði það viðurkennt ferðamannasvæði í samræmi við hringveg 1. Og aðrar atvinnugreinar myndu græða á bættum samgöngum. Við þurfum að komast út úr þeirri umræðu að plástra vegakerfið um landið og t.d. þennan vegarkafla sem er mjög mikilvægur og mikið samgöngumannvirki á öllu þessu svæði, sem er Snæfellsnesið. Til að horfa til framtíðar þurfum við að skilgreina þessar meginleiðir upp á nýtt. Umferðartíðni á þeim leiðum hefur breyst gríðarlega á þessum áratug og engar áætlanir til sem sáu það fyrir.

Á sama tíma og ég fagna tillögunni vil ég líka leggja til að slíkir vegir sem Skógarstrandarvegur er séu viðurkenndir sem hluti af meginsamgöngukerfi Snæfellsness.