148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

169. mál
[17:34]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að flytja þessa þingsályktunartillögu um Skógarstrandarveg. Mér finnst það mikið fagnaðarefni því að þetta hefur verið til umræðu í mörg ár. Þessi vegur er mjög nauðsynlegur samgöngum á Snæfellsnesi, inn í Dali og norður í land. Það hefur verið gríðarleg aukning á umferð um þennan veg, sérstaklega síðustu ár með fjölgun ferðamanna. Þeir eru að koma þarna mikið. Maður sér að ferðamenn eru náttúrlega að nota þessi GPS-tæki, þegar þeir eru að koma að vestan og sunnan og eru að fara vestur á firði, og þá er þeim oftar en ekki beint þessa leið. Þarna hefur slysum fjölgað. Þetta er mjög mikill flöskuháls, þessi leið eftir Skógarströndinni.

Það má geta þess að vegir í Dölum, Dalasýslu, eru u.þ.b. 70% malarvegir; ekki nema um 30% vega eru með bundið slitlag á því svæði. Þetta er mjög stórt svæði, kannski ekki fjölmennt, og mikil nauðsyn á að lagfæra þetta.

Ég hjó eftir því í niðurlagi ræðu hv. þingmanns að þegar hún var búin að lesa textann þá fannst mér ekki gæta mikillar bjartsýni um að þetta yrði á dagskrá fljótlega. Vonandi hef ég bara ekki heyrt rétt. Mig langar að spyrja þingmanninn út í það. Hefur þingmaðurinn trú á því að þetta geti komið fljótlega til framkvæmda?