148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

169. mál
[17:39]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já ég er alveg sammála hv. þingmanni í því að vegir landsins eru komnir langt fram yfir síðasta söludag. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að verða vitni að því í því ríka landi sem við búum í. Ég hef haft þá kenningu og kannski fleiri að stefna ríkisstjórnar undanfarinna ára hafi verið sú að reka ríkissjóð með hallalausum fjárlögum og afgangi, það hefur verið einblínt mikið á það, sem er í raun hið besta mál, en við það hafi innviðir, eins og samgöngumál, setið eftir.

Við þurfum heldur betur að spýta í lófana og koma samgöngumálunum í lag. Um er að ræða lífæðina út á land hringinn í kringum landið. Ef við erum að hugsa um búsetu á landsbyggðinni eru samgöngurnar númer eitt, til að hægt sé að komast á staðina.

Ég segi enn og aftur: Ég fagna þessari þingsályktunartillögu. Vonandi verður hún til þess að ýta því af stað að gengið verði í þessi mál af festu. Þar komum við inn á samgönguáætlun til næstu fimm ára. Við fengum þau sorgartíðindi að ekki er von á henni fyrr en í haust. Það er svolítið einkennilegt að hún skuli ekki koma fram núna. Manni dettur í hug að ástæðan fyrir því sé sú að sveitarstjórnarkosningar eru í vor, en vonandi er það ekki rétt ályktun hjá mér.

Ein spurning að lokum? Ég veit það ekki, það er eiginlega sama spurning og ég var með áðan. Eg ætla bara að láta þetta gott heita og þakka fyrir mig.