148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[17:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég verð að taka undir áhyggjur kollega minna af málefnaþurrð ríkisstjórnarinnar. Þar sem þingmannafrumvörp hafa borið uppi þingstarfið síðustu vikur og misseri, vil ég vekja athygli á því að þrátt fyrir fallegt tal um að nú fái þingmannamál aukið vægi og meira pláss og að hér sé verið að gera vel við okkur þingmenn með því að við fáum að mæla fyrir þessum málum, þá veldur það mér vissulega áhyggjum að þessi mál séu ekki unnin jafnt og þétt, þ.e. að ríkisstjórnin leggi ekki á sama tíma fram mál. Hvað gerist? Jú, við fáum að mæla fyrir þessum þingmannamálum okkar, þau fá jafnvel afgreiðslu í þingnefndum. En svo þegar kemur að því að þau fara í eðlilegan farveg á þinginu, hvað gerist þá? Þeim verður öllum sópað til hliðar vegna þess að nú þurfi stjórnarfrumvörpin að komast að.

Mér finnst við vera höfð að leiksoppum hérna, herra forseti. Mér finnst að það eigi ekki að líðast. Ég legg til að ríkisstjórnin fari að upplýsa okkur um hvernær von sé á einhverjum málum og hvort þingmannamálin fái afgreiðslu ef stjórnarmálin koma öll fram í lok þingsins.