148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[17:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Tvö mál bíða frá ríkisstjórninni. Það eru reyndar mál sem síðasta ríkisstjórn flutti, annars vegar um rafrettur og hins vegar álamál. Ekkert annað kemur að frumkvæði ríkisstjórnarinnar núna eða sem bíður. Síðan bíða þingmannamál.

Ég gæti komið hér upp og sagt að það hljóti að vera eitthvert grín í gangi, en það er ófremdarástand og það er vandræðalegt. Ég bind vonir við að eitthvað sé að marka það sem stendur í ríkisstjórnarsáttmálanum um ný vinnubrögð. Ef það er þannig að við sem viljum koma að þingmannamálum sjáum fleiri afgreiðslur á þeim mál í lok þingsins skal ég taka hatt minn ofan fyrir ríkisstjórninni. Ef við sjáum að við erum ekki bara eitthvert uppfyllingarefni fyrir hæstv. forseta þingsins eða ríkisstjórnina til þess að þingið hafi eitthvað að gera, að við komum málum okkar raunverulega fram sem við erum búin að leggja mikla vinnu í og nefndirnar líka, þá getur (Forseti hringir.) verið að landslagið sé breytt.

Ég vil hvetja ríkisstjórnina til þess að koma fram með málin. Það stendur ekki á okkur í stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) að fara að byggja upp samgöngur í landinu, að byggja upp innviðina, löggæsluna o.s.frv. Það þýðir ekkert fyrir (Forseti hringir.) þingmenn Vinstri grænna að sitja hér glottandi úti í sal. Farið að koma ykkur að verki.