148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[17:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmenn kalla eftir því að fá að sjá á spilin hjá hæstv. ríkisstjórn. Hvar er stórsóknin í menntamálum? Hvar er innviðauppbyggingin? Og hvernig á að bjarga heilbrigðiskerfinu?

Eins og fram hefur komið er afskaplega fátt um fína drætti. Við fáum ekki að sjá á spilin. Við getum auðvitað getið okkur til um hver ástæðan er. Ég efast um að ástæðan séu ný vinnubrögð og að nú eigi öll þingmannamál að fá góða framvindu í nefndum og afgreiðslu í þingsal. Ég held að vandamálið sé að stjórnarflokkarnir geta ekki komið sér saman um málin og þau fari ekki út úr þingflokkunum því að ferlið er náttúrlega þannig að málin koma úr ríkisstjórn, fara svo í gegnum þingflokkana og þaðan í þingið.

Hæstv. forseti. Getur verið að staflarnir séu inni í þingflokksherbergjum stjórnarflokkanna?